139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

lokafjárlög 2009.

570. mál
[22:40]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé nauðsynlegt fyrir okkur að breyta þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið í áratugi. Nú er 15. mars 2011 eins og allir vita, og við ræðum frumvarp til lokafjárlaga sem er í raun og veru þingskjal vegna ríkisreiknings fyrir árið 2009. Meðferð málsins verður væntanlega ekki lokið fyrr en um mitt þetta ár, í maí mundi ég giska á, jafnvel í júní, rétt fyrir þinglok, vegna þess að það á eftir að fara með frumvarpið til fjárlaganefndar eftir 1. umr. og Ríkisendurskoðun á eftir að gera skýrslu um það þannig að við munum í raun afgreiða lokafjárlög 2009 um mitt ár 2011.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í mestu vinsemd hvort ekki sé mjög mikilvægt að við breytum því ferli þannig að við ræðum þessi mál fyrr, á réttum tíma.

Mig langar líka að kalla fram sjónarmið hæstv. ráðherra gagnvart því sem gerst hefur. Ef maður skoðar fjárlög og fjáraukalög undanfarinna ára kemur í ljós að breytingin er alveg gífurleg. Til dæmis er breytingin á milli ríkisreiknings og fjárlaga mjög mikil frá árinu 1998–2007, sem er ekki í tíð núverandi hæstv. ráðherra, eða um 9% að meðaltali. Breytingin fyrir árið 2009 var einungis 4,2%, sem er mjög lágt miðað við það sem verið hefur á undanförnum árum.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvort við þurfum ekki að bæta enn frekar gæði fjárlagagerðarinnar þótt okkur hafi miðað eitthvað áfram.