139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

lokafjárlög 2009.

570. mál
[22:47]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að reynslan sé besti dómarinn í þessu. Ég segi algerlega kinnroðalaust, og er mér málið þó skylt, að ég held að við getum ekki verið annað en ánægð með þróunina og útkomuna bæði árin, 2009 og 2010. Það er auðvelt að sýna fram á það í samanburði að almennt stóðust áætlanirnar þá tiltölulega mjög vel. Á árinu 2009 var tekjuhliðin að vísu í óvissu framan af en reyndist síðan sterkari en ætla hefði mátt miðað við horfurnar, eins og þær voru nú dökkar um áramótin 2008/2009. Útgjaldaáætlun stóðst vel og á árinu 2010 er útkoman á sinn hátt enn betri því að tekjuáætlun stenst nokkurn veginn nákvæmlega og útgjöld eru vel innan heimilda. Kannski má að einhverju leyti draga þann lærdóm af þessu að það sé að sumu leyti auðveldara að gera traustar áætlanir á tímum slaka og niðursveiflu í hagkerfinu, alla vega borið saman við þá reynslu, eins og hv. þingmaður nefndi réttilega, að mönnum gekk mjög illa að átta sig á t.d. tekjuforsendum á þenslutímanum og vanmátu þá tekjurnar ár eftir ár. Það góða sakar nú ekki, sérstaklega ekki hefðu nú verið traustar innstæður fyrir þeim tekjum, sem kannski má deila um, því að mikið af þeim voru í raun og veru þenslutengdar tekjur. En öllu verra var að útgjöldin höfðu tilhneigingu til að elta þessar vaxandi tekjur uppi og þá voru menn litlu nær.

Það má segja að enn sem komið er hafi þetta gengið þokkalega síðastliðin tvö ár. Ég held að það verði að segjast alveg eins og er að sérstaklega er aðdáunarvert hversu vel almennt hefur gengið að halda rekstrinum innan fjárheimilda. Á tímum mjög erfiðra samdráttaraðgerða hafa forstöðumenn í opinberum rekstri almennt sýnt gríðarlega ábyrgð og mikla samviskusemi við að aðlaga reksturinn að þeim knöppu fjárheimildum sem þeim hafa verið skammtaðar.