139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 17/2009 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

82. mál
[22:50]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 17/2009 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn um umhverfismál. Utanríkismálanefnd hefur fjallað um þetta mál og óskaði m.a. eftir áliti umhverfisnefndar.

Markmið þeirrar tilskipunar sem hér er fjallað um er að færa ábyrgð á umhverfistjóni til þess sem tjóninu veldur, þ.e. til rekstraraðila þeirrar atvinnustarfsemi sem fellur undir hana. Þar með á að tryggja að mengunarvaldurinn eða sá sem ber ábyrgð á umhverfistjóni eða yfirvofandi hættu á umhverfistjóni rannsaki, komi í veg fyrir eða bæti úr tjóni og beri allan kostnað þar af.

Ásamt framangreindu markmiði er tilgangur tilskipunarinnar að tryggja að öll atvinnustarfsemi á svæðinu beri sambærilega fjárhagsábyrgð á þeim skaða sem hún kann að valda. Ábyrgðin nær þó einungis til tjóns á umhverfinu. Ábyrgðin tekur til tjóns á vernduðum tegundum, náttúruverndarsvæðum, landi og vatni.

Innleiðing þessarar tilskipunar kallar á lagabreytingar hér á landi og hefur hæstv. umhverfisráðherra þegar hlutast til um það með framlagningu lagafrumvarps til heildarlaga um umhverfisábyrgð sem er að finna á þskj. 345, 299. mál, en það er nú til meðferðar í umhverfisnefnd.

Utanríkismálanefnd leggur til að þessi tillaga verði samþykkt óbreytt.

Birgitta Jónsdóttir og Valgerður Bjarnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir nefndarálitið rita Árni Þór Sigurðsson, formaður og framsögumaður, Álfheiður Ingadóttir, Bjarni Benediktsson, Helgi Hjörvar, Ólöf Nordal, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.