139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 18/2009 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

119. mál
[22:52]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 18/2009 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn um umhverfismál. Nefndin hefur m.a. óskað eftir áliti umhverfisnefndar um þessa tillögu og fylgir álit umhverfisnefndar með í nefndarálitinu.

Markmið þessarar tilskipunar er að setja reglur um meðhöndlun úrgangs frá jarðefnavinnslu, við meðferð og geymslu á steinum og steinefnum og frá námuvinnslu. Einnig fjallar tilskipunin um gerð úrgangsáætlana, starfsleyfi, fjárhagslega ábyrgð og fleira. Tilskipunin gildir ekki um annan úrgang en þann sem stafar beint af námuvinnslunni né heldur um úrgang frá námuvinnslu á hafsbotni. Samkvæmt tilskipuninni skulu námuúrgangsstaðir hafa starfsleyfi og vera undir eftirliti stjórnvalda sem halda einnig skrá yfir úrgangsstöðvar fyrir námuúrgang sem hefur verið lokað. Sú regla gildir að úrgang frá námuiðnaði skal meðhöndla á þann hátt að hann hafi ekki skaðleg áhrif á heilsu manna og umhverfi. Almenningur skal upplýstur um hvaða staðir hafa sótt um leyfi til urðunar og geymslu á námuúrgangi og um viðbragðsáætlanir vegna mengunarhættu.

Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og fjallar frumvarp umhverfisráðherra um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, með síðari breytingum, þ.e. 186. mál á þskj. 203, að hluta til um það efni. Það er nú til umfjöllunar í umhverfisnefnd.

Utanríkismálanefnd leggur til að þessi tillaga verði samþykkt.

Birgitta Jónsdóttir og Valgerður Bjarnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir nefndarálitið skrifa Árni Þór Sigurðsson, formaður og framsögumaður, Álfheiður Ingadóttir, Bjarni Benediktsson, Helgi Hjörvar, Ólöf Nordal, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir.