139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 32/2010 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn.

135. mál
[22:59]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 32/2010, um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn um flutningastarfsemi. Nefndin hefur fjallað um þetta mál og m.a. leitað álits bæði samgöngunefndar og sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar á tillögunni og eru álit nefndanna birt sem fylgiskjöl með nefndaráliti utanríkismálanefndar.

Markmiðið með umræddri tilskipun er að knýja skipaeigendur til að tryggja sig gegn tjóni sem þeir valda þriðja aðila með skipum sínum. Tilskipun 2009/20/EB er hluti af svokallaðri Erika III, þriðja siglingaöryggispakka ESB, en markmið hennar eru að fyrirbyggja sjóslys og kveða á um tilteknar ráðstafanir þegar slys verða. Er tilskipuninni ætlað að stoppa í lagalegt gat í alþjóðlegu siglingalöggjöfinni þar sem engin almenn skylda hvílir á skipaeigendum að þjóðarétti til að tryggja sig gegn tjóni sem þeir valda þriðja aðila. Bent hefur verið á að tilskipunin sé m.a. til hagsbóta fyrir skipaeigendur sem eru með fullnægjandi tryggingar vegna þess að eftir að tilskipunin tekur gildi þurfa þeir ekki að vera í samkeppni við lítið tryggð eða ótryggð skip.

Við umfjöllun samgöngunefndar vegna áðurnefndrar álitsbeiðni frá utanríkismálanefnd kom fram að mögulega væri tilgreining á þriðja aðila ekki fyllilega lýsandi um þá tjónþola sem ábyrgðartrygging samkvæmt tilskipun 2009/20/EB er ætlað að vernda. Var á það bent við umfjöllun samgöngunefndar að í einhverjum tilvikum kynni skilgreining tilskipunarinnar á tjóni að ná út fyrir svokallað beint tjón, þ.e. þegar tjón verður á hlut eða líkamstjón, og til svokallaðs afleidds tjóns, þ.e. til tjóns sem leiðir af beina tjóninu.

Nefndin vekur athygli á því að Samtök verslunar og þjónustu hafa í umsögn sinni við málið komið á framfæri ósk um að fá til yfirlestrar og athugasemda drög að frumvarpi um breytingar á siglingalögum, nr. 34/1985, með síðari breytingum, til innleiðingar á tilskipuninni og tekur nefndin undir það.

Innleiðing þessarar tilskipunar kallar á lagabreytingar hér á landi og mun hæstv. innanríkisráðherra væntanlega flytja frumvarp um breytingar á siglingalögum, nr. 34/1985, með síðari breytingum. Það frumvarp mun þá að sjálfsögðu koma til umfjöllunar í hv. samgöngunefnd. Eins og áður er getið tekur utanríkismálanefnd undir mikilvægi þess að hagsmunaaðilar eins og Samtök verslunar og þjónustu geti fengið frumvarpið til yfirlestrar og athugasemda. Nefndin leggur til að þessi tillaga verði samþykkt.

Birgitta Jónsdóttir og Valgerður Bjarnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir nefndarálitið rita Árni Þór Sigurðsson, formaður og framsögumaður, Álfheiður Ingadóttir, Bjarni Benediktsson, Helgi Hjörvar, Ólöf Nordal, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir.