139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

millilandaflug um Ísafjarðarflugvöll.

28. mál
[23:14]
Horfa

Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg):

Forseti. Ég flyt nefndarálit um tillögu til þingsályktunar um millilandaflug um Ísafjarðarflugvöll sem samgöngunefnd hefur tekið til umfjöllunar og afgreitt frá sér.

Nefndin hefur fjallað ítarlega um málið og hefur sömuleiðis fengið talsvert margar umsagnir og fjallaði nefndin um þær og leitaði upplýsinga um málið eftir þörfum.

Með tillögunni er lagt til að Alþingi feli innanríkisráðherra að tryggja að á Ísafjarðarflugvelli sé nægjanlegur búnaður og aðstaða til að hægt sé að sinna þaðan millilandaflugi með flugvélum sem núna hafa heimild til þess að fljúga um völlinn.

Í greinargerð með tillögunni kemur m.a. fram að um árabil hafi verið allmiklar flugsamgöngur á milli Ísafjarðar og Grænlands. Er á það bent að slík starfsemi hafi skapað umsvif og tekjur og opnað nýja möguleika til samskipta á milli Vestfjarða og Grænlands. Er það mat tillöguhöfunda að slík samskipti séu mikilvæg enda sé landfræðilega stutt á milli Ísafjarðar og Grænlands.

Margir umsagnaraðila fagna tillögunni, fagna framkomu hennar eða gera ekki athugasemdir við efni hennar. Þá er viðleitni þingmanna til að auka umsvif og hagræði í millilandaflugi fagnað sérstaklega. Byggjast skoðanir framangreindra aðila hvað helst á sjónarmiðum um að efla beri grundvöll flugrekstrar á Íslandi og að auka eigi samstarf milli Íslands og Grænlands. Þá er talið nauðsynlegt að hamla gegn því að flugrekstur þjappist saman á fáa staði landsins.

Á hinn bóginn ber að geta þess að innanríkisráðuneyti vísar í umsögn sinni um málið til þess að samgöngur á milli Ísafjarðar og Grænlands séu ekki meðal grunnþarfa samfélagsins og því ekki meðal forgangsverkefna í samgöngumálum. Þá vekur ráðuneytið athygli á því að tillögunni fylgi ekki kostnaðaráætlun, hagkvæmnigreining, fjármagn, upplýsingar um hvaða tiltekin verkefni eigi að ráðast í til að nýta fjárfestinguna og hvaða skuldbindingar liggi að baki henni.

Í einni umsögn kom fram að mögulega væri eðlilegt að gera breytingar á heiti og orðalagi tillögunnar. Er það skilningur nefndarinnar að umsagnaraðilinn telji að slíkar breytingar kunni að undirstrika sérstöðu hennar betur.

Á fundum nefndarinnar komu fram verulegar efasemdir um að kostnaðarútreikningur sem fylgdi umsögn Isavia ohf. væri að öllu leyti réttur. Var á það bent að Ísafjarðarflugvöllur hefði á árum áður og um langt skeið gegnt hlutverki millilandaflugvallar. Af þeim sökum væri ýmis nauðsynlegur tækjabúnaður, hæft og sveigjanlegt starfsfólk og aðstaða þegar til staðar.

Nefndin tekur undir framkomin orð þeirra umsagnaraðila sem hvatt hafa til samþykktar tillögunnar. Fagnar nefndin því sérstaklega hve jákvæðum augum flugrekendur og aðrir hagsmunaaðilar líta aukna möguleika í flugrekstri á Íslandi. Bera skoðanir og hvatningarorð margra umsagnaraðila með sér þá einurð sem einkennir íslenskt atvinnulíf. Þá telur nefndin að ekki verði hjá því litið að framkvæmd hugmynda um Grænlandsflug verður að byggja á raunhæfum og gaumgæfðum forsendum.

Í ljósi þess sem fram hefur komið og þeirra hagsmuna sem tillögunni er ætlað að styðja við leggur nefndin til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingum.

Í fyrsta lagi að tillögugreinin orðist svo:

Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að gera úttekt á kostnaði og mögulegum leiðum til þess að tryggja að á Ísafjarðarflugvelli verði nægjanlegur búnaður og aðstaða til að unnt verði að sinna þaðan flugi til Grænlands. Úttektin og niðurstöður hennar verði kynntar samgöngunefnd Alþingis eins fljótt og auðið er.

Í öðru lagi að heiti tillögunnar verði: Tillaga til þingsályktunar um flug til Grænlands um Ísafjarðarflugvöll.

Nefndin er einhuga í afstöðu sinni til þessa máls. Undir nefndarálitið skrifar Björn Valur Gíslason, formaður, Róbert Marshall, Árni Johnsen, Guðmundur Steingrímsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ásbjörn Óttarsson, Mörður Árnason og Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ólína Þorvarðardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.