139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

millilandaflug um Ísafjarðarflugvöll.

28. mál
[23:18]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það nefndarálit og sú breytingartillaga sem hv. þm. Björn Valur Gíslason hefur gert hér grein fyrir er við þingsályktunartillögu sem ég er fyrsti flutningsmaður að en að henni standa einnig aðrir þingmenn Norðvesturkjördæmis. Ég tel að niðurstaða nefndarinnar sé vel viðunandi. Raunar er gert ráð fyrir því að þrengja nokkuð þær hugmyndir sem upphaflega var lagt af stað með. Þær hugmyndir gengu út á að opna fyrir möguleika á að hægt væri að sinna millilandaflugi frá Ísafjarðarflugvelli með flugvélum sem núna hafa heimild til þess að fljúga um völlinn.

Glögglega kemur fram í greinargerð með þingsályktunartillögunni að fyrst og fremst sé horft til möguleika á því að sinna millilandaflugi frá Ísafjarðarflugvelli til Grænlands. Fyrir því eru m.a. sögulegar ástæður. Um árabil var talsvert flug á milli Ísafjarðarflugvallar og Grænlands þangað til fyrir það var tekið nema að því leyti að hægt var að stunda þetta flug með sérstökum undanþágum sem fengust jafnan ef aðstæður voru þannig að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Hins vegar er tafsamt og ekki mjög skilvirkt að standa þannig að málum. Þess vegna er mikilvægt að opna fyrir almenna heimild. Þá heimild er verið að opna fyrir með þeim hætti sem tillaga hv. samgöngunefndar gerir ráð fyrir, þ.e. að opna fyrst og fremst fyrir flug milli Ísafjarðarflugvallar og Grænlands. Það er í raun og veru þungamiðjan í röksemdunum á bak við tillöguna eins og hún var upphaflega flutt. Ég tel að þessi niðurstaðan samgöngunefndar sé því vel viðunandi fyrir okkur sem stóðum að málinu og uppfylli þau meginmarkmið sem tillögunni var ætlað að mæta.

Við vitum að þetta getur skipt miklu máli fyrir atvinnulífið á Ísafirði og einkanlega á norðanverðum Vestfjörðum, einnig fyrir landið í heild. Þetta getur aukið almenn umsvif í efnahagslífinu. Þetta getur skapað nýja möguleika á ferðamálasviði. Þetta getur opnað nýja möguleika á að sinna ýmiss konar þjónustu sem Grænlendingar kaupa t.d. núna frá Danmörku. Þetta getur líka opnað ýmis ný tækifæri fyrir Grænlendinga og því skulum við alls ekki gleyma, það skiptir gríðarlega miklu máli.

Ef þessi tillaga verður afgreidd á Alþingi, sem ég geri nú fastlega ráð fyrir að verði á morgun, er ákaflega mikilvægt að málinu verði fylgt vel eftir. Nú fær framkvæmdarvaldið, innanríkisráðuneytið og Isavia, þetta mál til meðhöndlunar. Á grundvelli þess verður væntanlega mótuð stefna um hvernig standa eigi að nauðsynlegri uppbyggingu á Ísafjarðarflugvelli til þess að hægt sé að sinna flugi þaðan til Grænlands. Nú má segja að framkvæmdarvaldið hafi hitann í haldinu til að fylgja málinu eftir.

Það er ákaflega brýnt að þetta verði ekki bara orðin tóm heldur verði að veruleika sem allra fyrst. Ég veit að það eru miklar vonir bundnar við málið. Á Vestfjörðum hefur á undanförnum árum heilmikið verið gert til þess að efla tengslin milli Grænlands og Vestfjarða, og Íslands þar með. Stofnað hefur verið sérstakt Grænlandssetur. Á sínum tíma var samþykkt þingsályktunartillaga á Alþingi sem gengur út á hið sama. Einstakir áhugamenn á svæðinu hafa unnið að þessu. Bæjaryfirvöld í Ísafjarðarbæ höfðu að þessu sérstakt frumkvæði. Þáverandi hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fór með sendinefnd skipaða m.a. fulltrúum Vestfjarða til Grænlands til að treysta þessi samskipti Grænlands og Vestfjarða. Margt hefur því verið gert nú þegar til að undirbúa þetta. Það sem hefur hins vegar staðið í veginum er skortur á samgöngum á milli Ísafjarðar, og þar með Íslands, og Grænlands. Með tillögunni er vonandi verið að stíga fyrsta skrefið til þess að bæta úr því.

Það má svo sem velta fyrir sér í hverju möguleikarnir geta falist, hvort fyrst og fremst verði þjónusta við austurströnd Grænlands eða vesturströndina. Það mun tíminn leiða í ljós. Aðalatriðið er að við séum þá að leggja af stað með áform um að byggja upp nægjanlega innviði á Ísafjarðarflugvelli til að hægt sé að sinna þessu flugi, bæði í bráð og lengd, og það verði hægt að gera það öðruvísi en nú er gert þar sem flugið er á grundvelli einstakra undanþágna sem flugrekstraraðilar fá í það og það skiptið. Það sjá auðvitað allir að það er ekki vænlegur grundvöllur til þess að byggja upp einhverja atvinnustarfsemi sem byggir á samskiptum Íslands og Grænlands. Það verður að gera þetta með miklu varanlegri hætti.

Við vitum að fyrrum var heilmikið flug stundað þarna á milli eins og ég rakti áðan. Aðstæður, sem breyttust m.a. með tilkomu Schengen, gerðu það að verkum að það varð allt saman önugra og erfiðara við að eiga. Þess vegna er mikilvægt að vinda bráðan bug að þessu. Við vitum að Ísafjarðarflugvöllur er einn fjölfarnasti flugvöllur hér innan lands. Á milli Reykjavíkur og Ísafjarðar fara tugir þúsunda manna á hverju ári í flug sem talið er uppfylla öll öryggisskilyrði, ella væri það flug náttúrlega ekki stundað. Því er engin ástæða til að ætla annað en hægt sé að stunda þetta millilandaflug með t.d. sambærilegum flugvélum og lenda núna á Ísafjarðarflugvelli, stunda þetta millilandaflug milli Íslands, Ísafjarðarflugvallar, og Grænlands.

Í trausti alls þessa fagna ég niðurstöðu samgöngunefndar og trúi því að þetta geti orðið upphafið að stórauknum samskiptum Vestfjarða og Grænlands og þar með Íslands og Grænlands.