139. löggjafarþing — 93. fundur,  15. mars 2011.

millilandaflug um Ísafjarðarflugvöll.

28. mál
[23:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil í fyrsta lagi lýsa ánægju minni með hversu jákvætt nefndin tók í þetta mál. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um innihaldið. Það er búið að lýsa því hér og fara ágætlega yfir mikilvægi málsins.

Það er tvennt sem ég vil gera athugasemdir við eða benda á í nefndaráliti frá samgöngunefnd. Annars vegar er vísað í umsögn frá innanríkisráðuneytinu þar sem segir að það verkefni sem nú er rætt um, þar á meðal flugsamgöngur milli Ísafjarðar og Grænlands, sé ekki meðal grunnþarfa samfélagsins. Það er örugglega rétt þegar búið er að skilgreina hverjar eru grunnþarfir hvers samfélags eða grunnþarfir samfélagsins fyrir vestan. Hins vegar held ég að flestir geti verið sammála um að samgöngubót sem þessi og verkefnin geti orðið til þess að bæta mjög hag íbúa svæðisins og þau tækifæri sem þar eru varðandi atvinnuuppbyggingu og frekari þróun í samfélaginu. Því er þetta verkefni mjög mikilvægt þó að færa megi rök fyrir því að það teljist ekki til hefðbundinna grunnþarfa.

Hitt atriðið sem mig langar að benda á kemur fram í breytingum frá nefndinni varðandi tillögugreinina sjálfa. Þar stendur í lokin, með leyfi forseta:

„Úttektin og niðurstöður hennar verði kynntar samgöngunefnd Alþingis eins fljótt og auðið er.“

Þarna hefði ég viljað sjá kveðið sterkar að orði, að settur væri einhver endapunktur á þá vinnu sem ráðuneytinu er heimilt að fara í, það yrði t.d. klárt fyrir lok þess þings er nú starfar eða áður en þingið fer í sumarleyfi — þær upplýsingar sem á að taka saman, áætlunin — og þar af leiðandi væri hægt að taka málið upp að nýju í haust ef ekkert merkilegra gerðist í því í sumar. Ég held hins vegar að orðalagið „svo fljótt sem auðið er“ sé býsna teygjanlegt og þar af leiðandi hægt að ýta málinu á undan sér og taka önnur mikilvæg mál fram fyrir það.

Ég vildi endilega nota tækifærið og hvetja til þess að þetta verði unnið hratt og örugglega þannig að við fáum að sjá einhverja niðurstöðu eða alla vega áætlanir áður en það þing er nú starfar fer í sumarleyfi. Ég geri mér grein fyrir að það þarf að fara í einhverja vinnu en engu að síður er þetta mikilvægt verkefni. Þess vegna legg ég áherslu á það með þessum hætti. Að öðru leyti vil ég þakka fyrir þann jákvæða tón sem er í nefndarálitinu og umsögn nefndarinnar.