139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

störf þingsins.

[14:05]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég held að við getum séð stöðu Íslands í dag í hnotskurn með því að horfa til stöðu Þingeyjarsýslna þar sem á síðustu 10–20 árum hefur verið sífelldur samdráttur, enginn hagvöxtur á svæðinu, lífskjör dragast þar saman ár eftir ár og það virðist vera nokkuð sama með hvaða hætti íbúar þess svæðis bera sig eftir björginni, þeir koma alls staðar að læstum dyrum. Fyrir síðustu alþingiskosningar var þeim bent á að lífsbjörgin gæti legið í því að það væri „eitthvað annað“ en það að nýta auðlindir svæðisins til atvinnusköpunar og þetta annað birtist þeim ágætlega í fjárlögum fyrir árið 2011 sem var niðurskurður á þeim stofnunum sem þeir sem töluðu fyrir „einhverju öðru“ ætluðu að byggja upp.

Ástæða þess að ég kem hingað upp er sú að á grunni tillögu sem fjölmennur borgarafundur á Húsavík samþykkti í fyrrahaust, grunni ályktunar sem bæjarstjórn Norðurþings hefur samþykkt, bar ég fram tvær þingsályktunartillögur og mælti fyrir þeim í lok nóvember á síðasta ári. Þeim var þá vísað til iðnaðarnefndar. Önnur laut að rannsóknum á olíu og gasi í Skjálfandaflóa og hin að því að hvetja ríkisstjórnina til að ganga til samstarfs við stórfyrirtæki sem vildu byggja upp orkufrekan iðnað á grundvelli orkunnar í Þingeyjarsýslu.

Nú hefur hv. iðnaðarnefnd legið á þessum tveimur tillögum í þrjá mánuði og ég krefst þess að hv. þm. Kristján Möller komi hingað upp og lýsi yfir vilja til að hv. iðnaðarnefnd hafi í það minnsta skoðanir á þessum tveim þingsályktunartillögum, þótt ekki væri meira, og fari að afgreiða þær hingað inn til þingsins. (VigH: Það eru viðræður …)