139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

kjarasamningar, atvinnumál, efnahagsmál.

[14:24]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Mér hnykkti nokkuð við þegar hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, sá prúði drengur, talaði um óþverrabragð og hélt því fram að við lifðum hér í blekkingu og afneitun. Það vill svo til að við hv. þingmaður sátum saman í ríkisstjórn haustið 2008 og þekkjum nokkuð til blekkinga og afneitunar en látum það liggja á milli hluta í dag.

Ég er ekki viss um að sú umræða sem hér fer fram sé endilega til þess fallin að blása fólki anda í brjóst eða efla traust fjárfesta, hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir, (Gripið fram í.) á stöðunni i samfélaginu. Ég mundi mjög gjarnan vilja, frú forseti, ef ég mætti, fá þá þingmenn sem hingað hafa komið upp til að leggja sín góðu höfuð saman og … (TÞH: Syngja gleði, gleði alla tíð.) Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson má gera það ef hann vill, hann má gera það ef hann vill. Við vitum öll sem hér erum að íslenska krónan þýðir höft, hún þýðir gjaldeyrishöft, og að íslenska krónan er ekki gjaldmiðill sem mun nýtast okkur næstu ár og áratugi. (Gripið fram í: Jú, jú.) Hvernig ætlum við sem ábyrgir stjórnmálamenn að koma hér upp og tala um nauðsyn uppbyggingar í atvinnulífinu og nauðsyn fjárfestingar, innlendrar og erlendrar, ef við ætlum ekki segja kjósendum okkar hvernig nákvæmlega við losum þessi höft og hvað nákvæmlega tekur við til langs tíma og hvernig við ætlum að byggja upp gjaldmiðil sem er nothæfur? Hvernig ætla þessir sömu hv. þingmenn og hingað koma upp til að geipa um stöðuna eða ekki að svara kjósendum (Forseti hringir.) sínum þessari spurningu?