139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

millilandaflug um Ísafjarðarflugvöll.

28. mál
[14:58]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um þingsályktunartillögu um flug til Grænlands um Ísafjarðarflugvöll. Í henni er lagt til að innanríkisráðherra verði falið að gera úttekt á kostnaði á mögulegum leiðum til að tryggja að á Ísafjarðarflugvelli verði sá búnaður og sú aðstaða sem til þarf svo að hægt sé að sinna flugi til Grænlands. Mikil tækifæri og möguleikar felast í flugi frá Ísafirði til Grænlands, jafnt í ferðaþjónustu sem og annarri þjónustu og viðskiptum milli þessara landsvæða. Á árum áður áttu þessi svæði mikil og góð samskipti og viðskipti og þar lék Ísafjarðarflugvöllur stórt hlutverk sem millilandaflugvöllur.