139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

staðgreiðsla opinberra gjalda o.fl.

210. mál
[15:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Hér er lítið mál um kyrrsetningu eigna, heimildir til handa skattrannsóknarstjóra þar að lútandi, og var til umræðu í síðustu viku en að ósk fulltrúa Sjálfstæðisflokksins var það kallað inn í nefnd milli 2. og 3. umr.

Meiri hlutinn gerir ekki tillögur um breytingar á málinu. Þingið hefur sett inn í lögin heimildir fyrir þá sem fyrir þessum aðgerðum verða til að bera kyrrsetninguna undir dómara. Sömuleiðis hefur hún takmarkað heimildina við brot á 262. gr. almennra hegningarlaga, þ.e. mjög alvarleg skattalagabrot, og undirstrikar að hér er um að ræða þá heimild sem lögreglan hefur haft til kyrrsetningar eigna sem nú er líka falin skattrannsóknarstjóra og þess vegna löng hefð fyrir slíku úrræði í íslenskum lögum og beitingu þeirra.

Við leggjum til að frumvarpið verði samþykkt sem lög frá Alþingi.