139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

stjórn vatnamála.

298. mál
[15:23]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Hv. þm. Mörður Árnason hefur gert grein fyrir nefndaráliti um frumvarp um stjórn vatnamála, fyrir innihaldi þess, og lýst því með sóma með hvaða hætti nefndin vann að breytingum á því torfi sem hún fékk til umfjöllunar í formi frumvarps fyrst þegar málið kom til hennar. Það verður að segjast eins og er að vinnan við frumvarpið hefur verið mjög lærdómsrík og hefur gengið á ýmsu. Stundum hefði ekki verið verra að hafa örlítið kælivatn á fundum nefndarinnar en allt hafðist þetta nú og gekk þokkalega þrautalaust. (Gripið fram í: Kælivatnshlot.) Já, hér er nefnt fyrirbæri sem kallast hlot og leiðir hugann að því að við höfum lært ýmis ný hugtök og heiti sem áður voru okkur hulin einhvers staðar djúpt í faglegri umræðu sem við fáum rétt að tengjast núna. Vatnshlot er t.d. að verða mjög algengt orð í munni nefndarmanna í hv. umhverfisnefnd. Það fer að vísu misjafnlega í munni en venst ágætlega, ég skal viðurkenna það. Mér finnst það orð vinna á þegar maður notar það og ekki geri ég fyrirvara við það.

Fyrirvarar þeir sem ég tala fyrir og eru ástæða þess að ég undirrita þetta annars ágæta nefndarálit með fyrirvara, eru ekki mjög þungir hvað innihald frumvarpsins varðar heldur eru það fyrst og fremst hlutir sem lúta að vinnunni við það, ekki í umhverfisnefnd heldur hvernig frumvörp koma fram til þingsins, jafnflókin og viðamikil og þau eru oft og snerta marga þætti. Lögin eru búin til á grunni þeirrar tilskipunar sem þarna er verið að innleiða. Vert er að hafa í huga að við innleiðum tilskipanir á ýmsum sviðum, m.a. hvernig við eigum að meta áhrif löggjafar á stjórnsýslu og atvinnulíf allt og áhrif löggjafarinnar á lífsskilyrði fólks og fyrirtækja í landinu.

Þannig háttar til að í flestum þeim umsögnum sem við fengum um frumvarpið kom fram að stjórnsýslan þótti þung og flókin. Eins og hv. formaður nefndarinnar lýsti áðan hafa verið gerðar ákveðnar breytingar til batnaðar í þeim efnum en engu að síður sjáum við ekki hvernig kerfið allt á saman að vinna saman.

Ég nefni kostnaðarmatið sem ég vil gera örstutt að umtalsefni og lýtur að því að unnið hefur verið á grunni samþykktar sem gerð var, mig minnir að hún sé kölluð Einfaldara Ísland. Hún byggir í rauninni á Evóputilskipunum og vinnulagi sem tíðkað er í ýmsum grannríkjum okkar þar sem vilji hefur staðið til þess að draga úr reglubyrði. Ég hef að vísu ekki flett þeim reglum upp en eftir því sem mér er sagt eiga að vera í gildi reglur sem mæla fyrir um að við mat á kostnaðarþáttum og framkvæmd frumvarpa eigi að reyna að draga fram mat á áhrifum á kostnað og ávinning og aðra mælikvarða við þá frumvarpssmíð sem sett er fram.

Vissulega er drepið á það í annars ágætu nefndaráliti og mælst til þess að vatnaráðið leggi mat á hugsanlegan ávinning sem af þessu kann að leiða. En í mínum huga kveða reglurnar sem í gildi eru og sem við höfum því miður ekki alltaf farið að, á um talsvert formbundnara samráð og mat, raunar meira samráð við kostnaðarmat en við fáum frá fjárlagaskrifstofunni einni og sér. Það þykir mér einkum skorta og nefni það sérstaklega í þessu máli vegna þess að það liggur fyrir að umsýslan sem því fylgir mun reyna á stofnanir ríkisvaldsins, ýmsar stofnanir sveitarfélaga, atvinnureksturinn og jafnframt sjálfstæðar stofnanir eins og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga. Það kallar á að samstarfið verði mjög mikið og náið en kostnaðurinn sem af þessu leiðir er og mun allur verða óljós, sérstaklega það sem lýtur að því þegar við þurfum að fara að vinna eftir þeirri áætlun sem samþykkt verður á grunni þessara laga og kemur til framkvæmda eftir sex ár.

Ég vil nefna að ástæðan fyrir fyrirvara mínum við frumvarpið lýtur líka að einstökum stofnunum og það kom raunar fram í máli hv. formanns nefndarinnar áðan. Ég vil þá fyrst nefna það sem kveðið er á um í bráðabirgðaákvæði með tillögu nefndarinnar að Umhverfisstofnun skuli hafa samráð við verkefnisstjórn um gerð verndar- og nýtingaráætlunar samkvæmt væntanlegum lögum þar um, eins og segir í greinargerðinni. Ég hefði talið fara betur á því að það væri verkefni Umhverfisstofnunar, sérstaklega skilgreint viðfangsefni hennar, og að ekki þyrfti að tiltaka það í bráðabirgðaákvæði í þessum lögum. Það sama gildir raunar um það ákvæði sem hv. formaður nefndi áðan varðandi hlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þar er gerð sú tillaga til breytingar að hlutur þeirrar tilteknu stofnunar sé tryggður í lögum um stjórn vatnamála og er áskilnaður um að hlutur Náttúrufræðistofnunar Íslands sé í samræmi við meginhlutverk þeirrar stofnunar á grundvelli laga sem um hana gilda frá árinu 1992. Það þykir mér einkennilegt og ég gat um það í nefndinni. Við ræddum það en tillagan liggur fyrir.

Ástæða þess að ég set fyrirvara við það er sú að við höfum orðið vör við það líka á öðrum sviðum í vinnslu þessa máls, sérstaklega þegar ákvæði frumvarpsins lutu að því að einstakir aðilar hefðu atkvæðisrétt í vatnaráði, þá myndaðist töluverð biðröð myndaðist eftir því að fá að sitja og skipa það ráð. Ástæðan fyrir því er einföld. Þeir aðilar sem eftir því sækja þar eru að reyna að tryggja sér áhrif og vinnu við þau mál sem þar er sýslað um. Með sama hætti tel ég að ríkisstofnanirnar séu með þessum tveimur breytingartillögum að tryggja sér aðgang að málinu sem ætti að vera tryggður í sérlögum um viðkomandi stofnanir. Mér þykir fara verr á því að setja þá skilmála inn í þá löggjöf sem hér er verið að setja, þ.e. í almenn lög um stjórn vatnamála.

Sá þáttur sem lýtur að kostnaðarmatinu er töluvert stórt atriði. Nú liggur fyrir að um það bil 40 millj. kr. eru nýttar á fjárlögum hvers árs til þessara mála og kostnaðaraukinn af þeirri löggjöf sem hér liggur fyrir er talinn verða um það bil 70 millj. kr. til viðbótar þeim kostnaði sem fyrir er þannig að við yrðum þá komin með um 110 millj. kr. í kostnað vegna málsins þegar lögin verða fullnustuð. Þegar rætt er um og spurt eftir því hvernig sá kostnaður dreifist, hvernig hann verður borinn o.s.frv., eru ekkert mjög skýr svör um það. Það er vissulega hægt að leiða fram ágæta áætlun um það hvernig þessar 110 millj. kunna að dreifast á einstök verkefni. Það er í sjálfu sér ekki stærsta áhyggjuefni mitt í þeim efnum heldur miklu fremur þau atriði sem kunna að koma til þegar sveitarfélög sem þurfa að gera breytingar á þeim þáttum sem lúta að lögum um stjórn vatnamála, þ.e. hvers eðlis þær breytingar kunna að verða, hversu mikið umfangið er og hvernig það verður greitt. Hér kemur ágætlega fram að grunnurinn að þeirri gjaldtöku sem fyrir þetta á að koma á að byggja á svokallaðri nytjareglu. Hún segir að sá eigi að borga sem kostnaðinum veldur eða nýtir vatnið.

Í þeim hugmyndum sem við höfum séð voru m.a. uppi hugmyndir um að inn í væntanlega tillögugerð varðandi framtíðarfjármögnun á því kæmi álagning á notendur í gegnum skatta sem þegar eru lagðir á eins og t.d. vatnsgjald sveitarfélaga. Ég hefði talið eðlilegt við vinnslu málsins að það lægi fyrir við afgreiðslu þess með hvaða hætti framtíðarskipan þeirrar gjaldtöku yrði háttað. Það kann að vera of brött krafa en ég teldi það vandaðri stjórnsýslu að skilja svo stórt mál ekki eftir í þeirri stöðu að við sæjum ekki fyrir og gætum ekki séð til enda með hvaða hætti við ætluðum að standa straum af kostnaði sem kynni að leiða af innleiðingu þessara laga. Á það er bent og það kom fram í máli hv. formanns áðan að hafin er fyrsta greiningin á þessu viðfangsefni en ég held að það sé töluvert mikil vinna, hún verður allverulega flókin.

Undir lok máls míns þakka ég þá vinnu og það samstarf sem átti sér stað í nefndinni eftir gott kælivatn og annað. Ég held að það hafi verið til stórra bóta. Ég varð líka var við vaxandi skilning á því þegar við unnum að málinu með hvaða hætti það mundi lenda í vinnslu á milli stjórnsýslustiga. Þess vegna vil ég óska eftir því við hv. formann nefndarinnar að við ræðum þá sérstaklega á milli 2. og 3. umr. það framtíðarfyrirkomulag sem lýtur að verkefnum sveitarfélaga. Mér finnst þáttur þeirra í frumvarpinu vera ágætlega tryggður eins og það liggur fyrir en ég ber nokkurn kvíðboga fyrir því hvernig kostnaðarþættinum og ábyrgðarhlutanum muni reiða af þegar upp koma einhver tilvik sem eru á mörkum stjórnsýslueininga. Við getum lent í ákveðnum vandræðum þar vegna þess að skilgreiningin á því er kannski ekki nægilega mikil eða getur boðið upp á að viðfangsefnum verði kastað á milli t.d. ríkis og sveitarfélaga en það kann hins vegar að tengjast því sem skilið var eftir í lausu lofti sem eru þau refsi- eða þvingunarúrræði sem nefnd voru áðan við framlagningu málsins.