139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

stjórn vatnamála.

298. mál
[15:37]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Mér er rétt og skylt að gera grein fyrir þeim fyrirvara sem ég gerði við afgreiðslu hv. umhverfisnefndar á frumvarpi þessu. Fyrirvarinn lýtur að því að ég ber enn í brjósti von um að á þeim tíma sem lifir eftir af vinnu Alþingis við lagasetningu þessa um stjórn vatnamála, takist að finna annað hljómfegurra, ljósara og auðskiljanlegra orð yfir vatnsheild eða þá einingu gerða úr vatni, sem er allt það vatn sem til að mynda er í einum læk, einni á, einu stöðuvatni, einum jökli eða þá grunnvatni á tilteknu svæði, heitu eða köldu, annað orð en það sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson nefndi áðan og er vatnshlot.

Máli mínu til stuðnings vil ég vísa til breytingartillagna á þskj. 1000, í 3. lið hennar, þ.e. 6., 7. og 15. tölulið, en í þeim er skilgreint orðið vatnshlot, sem er „eining vatns, svo sem allt það vatn sem er að finna í stöðuvatni, á eða strandsjó“ í 15. lið, „mikið breytt vatnshlot“ og „manngert vatnshlot“ í 6. og 7. tölulið.

Þegar þetta orð er notað í almennu máli eykst skilningurinn að mínu viti ekki, eins og í 11. gr. með breytingartillögunum þar sem lagt er til að 11. gr. orðist sem þar segir, með leyfi forseta:

„Flokka skal vatn í vatnshlot og gerðir vatnshlota og meta þau. Mat á yfirborðsvatnshloti skal byggjast á fyrirliggjandi gögnum hverju sinni og taka fyrir hverja vatnshlotsgerð …“ og svo framvegis.

Það hefur verið býsna áhugavert að vinna með tveimur öflugum málvísindamönnum í hv. umhverfisnefnd, þeim hv. þm. Merði Árnasyni, formanni nefndarinnar, og hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur. Mjög áhugaverð og árangursrík vinna hefur farið fram í nefndinni við að koma ýmsum atriðum þessa máls á mannamál, eins og hv. formaður nefndarinnar sagði áðan, í samræmi við málstefnuna um að málfar í skjölum sem þessum og lögum skuli vera vandað, einfalt og skýrt.

Eftir tíu ára starf sem útgáfustjóri, ritstjóri og prófarkalesari með meiru þykist ég stundum hafa nokkuð til málanna að leggja en það er ekki alltaf tekið mark á því, svo sem eins og á athugasemdum mínum við orðið vatnshlot. Því stend ég hér og get ekki annað.

Ég vil einfaldlega skora á hv. þingmenn og alla þá sem mál mitt heyra að finna annað og betra orð yfir þær vatnseiningar sem hér um ræðir. Ég tel að orðið vatnsheild gæti vel komið í stað þessa, en vil vísa til þess að í skýringum með frumvarpinu er þetta orð, vatnshlot, nefnt sem þýðing á því sem er á dönsku „legeme“, á ensku „body“ og í þýsku „Körper“.

Þetta eru orð sem í þessum tungumálum hafa merkingu í eðlisfræði sem er svo langt frá merkingu íslensku orðanna líkami, kroppur eða boddí, það eru þau orð sem við notum yfir þetta venjulega. Ég hlýt að viðurkenna að orðið hlot er betra en það, en vatnsheild eða eitthvað annað betra orð hlýtur að vera til á okkar ástkæra ylhýra máli og ég ber enn þá von í brjósti að við munum finna það fyrir morgundaginn eða áður en málið kemur til 3. umr.

Fyrirvari minn er sem sé málfræðilegur, herra forseti, máltilfinningu minni er hálfmisboðið vegna þessa orðs. Hins vegar lýsi ég fullum stuðningi við innihald frumvarpsins og tel að mjög mikill ávinningur sé að þessari lagasetningu því að hér er lagt upp með að vernda á skipulegan hátt vatn og vatnsgæði á Íslandi, bæta ástand vatnavistkerfa og votlendis jafnt sem þurrlendis sem tengist vatni. Við eigum mikið magn af fersku vatni, heitu og köldu vatni og ekki er vitað annað en að gæðin séu með besta móti og ástandið sé stöðugt, en við þurfum samt sem áður að vanda okkur og sú stýring vatnamála sem hér er lagt upp með tel ég að sé rétt leið.

Ég vil aðeins bregðast við einu atriði sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson nefndi og lýtur að breytingartillögu nefndarinnar varðandi 10. gr. frumvarpsins og er að finna í breytingartillögu nefndarinnar á bls. 4, sem lýtur að hlutverki Náttúrufræðistofnunar Íslands. Ég get ekki verið honum sammála um að það sé eitthvað verið að breyta því með þeirri áréttingu sem þarna er sett inn um að sú stofnun skuli skila af sér gögnum um vatnavistkerfi, vistkerfi þurrlendis og votlendis sem tengjast þeim að vatnabúskap, og um vistkerfi strandsjávar.

Ég vil vekja athygli hv. þingmanna á því að samkvæmt 4. gr. laga um Náttúrufræðistofnun Íslands ber stofnuninni að stunda undirstöðurannsóknir í dýrafræði, grasafræði og jarðfræði. Nú vill svo til að í vatni, bæði heitu og köldu, lifa dýr, grös og örverur sem eru á rannsóknasviði stofnunarinnar. Í því sambandi vil ég vísa sérstaklega til 5. gr. þar sem fjallað er um hlutverk stofnunarinnar sem skal hafa eftirlit vegna rannsókna og nýtingar á hveraörverum. Við hljótum að þurfa að hafa heildarsýnina inni í stjórn vatnamála, þar með talið þær lífverur sem búa í heitu og köldu vatni.

Fleira, herra forseti, vildi ég ekki nefna í þessu sambandi. Ég fagna frumvarpinu og ég óska þingheimi þess að þegar það kemur til 3. umr. verði orðið vatnshlot úr því horfið og í staðinn komið hljómfegurra og betra nafn.