139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

stjórn vatnamála.

298. mál
[15:55]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það staðfestir í rauninni í mínum huga það sem ég held að við séum sammála um, að við sjáum ekki til enda í þessu og að útfærslan á þessari nytjareglu geti ekki orðið til að við látum bara einn aðila sem notar auðlindina greiða eða standa undir kostnaðinum heldur þurfum við að velta honum yfir á alla sem nýta hana. Þar bendi ég á að heimili landsins hvert og eitt og síðan sameign þeirra, sem eru sveitarfélögin og ríkisstofnanir, eru sá stóri stabbi sem nýtir þessa auðlind.

Ég ítreka því enn og aftur það sem ég gat um í ræðu minni áðan, að matið á áhrifum slíkra frumvarpa sem taka til svo flókinna og viðamikilla mála og fylgja á frumvörpunum þegar þau koma til þingsins eigi að vera annars konar eða víðfeðmara en bara frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Ég held að það þurfi líka að vinna matið eins og kveðið er á um í reglum um eftirlit, hvernig því sé háttað, hver verði fyrir kostnaði, hver græði á því, hverjir njóti kostanna við að slík mál ná fram að ganga og í hvaða mynd það birtist o.s.frv. Það sem ég er að benda á er að þetta er svo víðtækt mál, hlotið er svo stórt og mikið að það þarf að vanda sig við að mæla það allt saman. Ég held að engin (Gripið fram í.) heild geti tekið á því önnur en hv. umhverfisnefnd þegar hún fær það síðar til umfjöllunar og frekari meðferðar.

Ég inni hv. þingmann eftir því hvort hann geti ekki tekið undir þessi sjónarmið. Við þurfum kannski að ítreka þau betur en við höfum gert.