139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

stjórn vatnamála.

298. mál
[15:57]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það. Ég held einmitt að við eigum að nýta okkur breytinguna sem við sjáum á málinu miðað við hefðbundin vinnubrögð og felst í að menn gefa sér ansi langan tíma til að sjá til lands í þessum efnum. Fjármögnunin er eitt af þeim atriðum sem verður til umfjöllunar. Við fáum væntanlega frumvarp um það, eins og ég gat um áðan, á allra næstu missirum því að menn gefa sér það að gjaldtakan hefjist 2013. Ég tel að við höfum ágætissvigrúm til að fara í gegnum mismunandi leiðir í þessu efni.

Eitt af því sem við hljótum að kalla eftir er kortlagning á því hvar kostnaðurinn liggur og hverjir munu hafa hag af þeirri nýtingu vatns sem þarna er undir í málaflokknum öllum. Ég ítreka að við eigum að fara í málið með opnum huga. Það skiptir öllu máli við þær aðstæður sem núna eru í fjármálum ríkissjóðs að við vöndum okkur í hverju skrefi þegar kemur að eins stórum málum og þessum.