139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[16:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur orðið um það mál sem við ræðum núna, þ.e. sameiningu tveggja stofnana, landlæknisembættisins og Lýðheilsustöðvar. Hún hefur að mörgu leyti verið áhugaverð en það hefur ekki alltaf verið jákvæður tónn í henni.

Þegar umræðan stóð hér fyrir nokkrum dögum, áður en henni var frestað, beindist hún aðallega að húsnæðismálum. Menn töldu ótækt að fara eins bratt og mönnum fannst eiga að fara í þessa sameiningu. Nú verður að líta til þess að ár er liðið frá því að ákvörðun var tekin um hvaða leiðir mætti fara, eftir töluverðan undirbúning þar sem fyrir lá hugmyndavinna um mismunandi leiðir til sameiningar eða skipulagsbreytingar innan heilbrigðisþjónustunnar. Sú ákvörðun var tekin að taka eitt varfærið skref í staðinn fyrir stærri sameiningu og sameina þessar stofnanir. Um langan tíma, alveg frá þeim tíma þegar Lýðheilsustöð var sett á laggirnar eða jafnvel fyrr, hefur verið umhugsunarefni hvort Lýðheilsustöð ætti að vera sérstök stofnun eða innan landlæknisembættisins. Það voru um það skiptar skoðanir þegar Lýðheilsustöð var stofnuð en sannarlega hefur hún starfað vel þennan tíma, frá 2003. Þegar allt er opnað upp aftur, um hvort fara eigi í skipulagsbreytingar innan heilbrigðisþjónustunnar, má gera það á margan hátt. Lítið skref var stigið en samlegðaráhrif þessara tveggja stofnana eru ótvíræð. Menn greinir ekkert á um það og þess vegna er horft á faglegu hliðina fyrst og fremst í þessari sameiningu.

Mér finnst einkennilegt að tala um að allt of stuttur tími fari í undirbúning þegar undirbúningur að sameiningu hefur staðið núna í ár. Að vísu kom frumvarpið fram í lok október og í byrjun nóvember inn í þingið. Með tilliti til þess í hve langan tíma undirbúningsvinnan hafði staðið og var langt komin í ráðuneytinu með aðkomu þessara aðila, ráðuneytis og beggja stofnana, var talið að sameiningin gæti átt sér stað um áramótin. Við þurfum ekkert að fara yfir það, það varð ekki, en ég tel að engum sé greiði gerður með því að draga það að sameina þessar tvær stofnanir. Það er búið að undirbúa þetta. Stofnanirnar eru tilbúnar, húsnæðið er til staðar en það er ekki búið að leigja það. Það verður ekki leigt fyrr en lögin taka gildi eftir því sem ég hef upplýsingar um og það er ekki verið að borga tvöfalda leigu ef við horfum á landlæknisembættishlutann. Eins og hér hefur margoft komið fram sitjum við þó sannarlega uppi með ekki bara einn ólánssamning heldur marga ólánssamninga sem ég kalla svo fyrir það að þeir eru ekki uppsegjanlegir. Þeir voru gerðir til langs tíma. Þetta er sameiginlegt vandamál margra opinberra stofnana sem verður að líta á sem verkefni í Fjársýslunni að kljást við. Það þýðir heldur ekki að vera með slíka samninga í höndunum, sem vissulega eru á mörgum stöðum farnir að bitna á starfsemi viðkomandi stofnunar, og að ekki megi hrófla við þeim stofnunum sem núna eru með slíka samninga, að ekkert megi gera, þær verði bara að vera bundnar út samningstímann. Það er ekki hægt.

Við þurfum að horfa á það sem er jákvætt. Það er jákvætt ef við stuðlum að því að koma hér á faglega sterkri stofnun. Við eigum að horfa á það.

Skipulagsbreytingar eru viðkvæmar, alveg sama hvenær farið er í þær, og það þarf að vanda vel til verka. Þeir sem hafa staðið að undirbúningi þessarar sameiningar telja sig hafa unnið núna í ár að þessum undirbúningi. Sameining á tímum efnahagskreppu verður hugsanlega með öðrum hætti en þegar allt leikur í lyndi. Þá er horft á sameiningu út frá öðrum forsendum. Þessi sameining er ekki eingöngu til að ná hagræðingu í rekstri. Það er horft til þess að starfsemi þessara stofnana verði öflugri, þær verði eins og þær eru en bara sem ein stofnun.

Kreppa hreyfir við hugmyndum og nauðsyn þess að fara í skipulagsbreytingar. Fyrir því eigum við að vera opin. Við eigum að vera opin fyrir því eins og efnahagsástandið er núna að sjá möguleikana í stjórnsýslunni án þess að draga úr þjónustu. Við eigum heldur að styrkja stofnanir. Þetta er hluti af því.

Það kostar að flytja. Það kostar að sameina. Það kemur fram á fyrstu tveimur, jafnvel þremur, árunum að það er aldrei hægt að komast hjá fjárhagslegum skuldbindingum við sameiningu. Það getur svo skilað sér til baka til lengri tíma litið í samlegðaráhrifum í rekstri þessara stofnana. Það er alveg rétt að Ríkisendurskoðun hefur skoðað það og telur að ekki hafi náðst nema takmarkaður árangur af sameiningu stofnana vegna þess að markmið með sameiningu opinberra stofnana hafi ekki náðst í 85% tilfella, en hvað varðar þessa stofnun er markmiðið fyrst og fremst faglegt. Rekstrarlega er markmiðið síðan að stofnanirnar reki sig innan fjárlaga á þessu ári.

Það er verið að efna til nýrrar stofnunar á grunni tveggja sem báðar halda starfssviði sínu. Ástæðan fyrir því að fallið er frá 7. gr. starfsmannalaganna er einfaldlega sú að það á að tryggja öllum starfsmönnum áframhaldandi starf við nýja stofnun. Það á ekki að opna allt upp og auglýsa eftir utanaðkomandi starfsmönnum, allir eiga að geta verið rólegir með að þeir fái störf hjá nýrri stofnun. Ég tel mikilvægt að valda ekki meiri óróleika en þörf er á eins og verður alltaf þegar verið er að breyta stofnunum, starfsmenn eiga að geta treyst því að þeir haldi störfum sínum áfram.

Fram að áramótum var unnið samkvæmt þeirri áætlun að lögin tækju gildi um áramótin. Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir las áðan upp úr bréfi sem heilbrigðisnefnd barst frá landlæknisembættinu, úr svari við bréfi frá trúnaðarmönnunum. Ég tel í fyllsta máta eðlilegt þar sem afrit var sent landlæknisembættinu og fleirum að sjónarmið embættisins kæmu fram sem svar við þessum ábendingum frá trúnaðarmönnunum. Landlæknir fer þar yfir þá gagnrýni sem kemur fram í bréfi trúnaðarmannanna og skýrir hvers vegna unnið hafi verið eins og gert var.

Þótt ekki sé farið eftir 7. gr. starfsmannalaganna sem á helst við stofnun nýrra embætta, nýrra stofnana, tel ég ekki síður góða stjórnsýslu í tilfelli eins og núna þegar verið er að sameina þessar tvær stofnanir. Þær eiga að halda hlutverki sínu. Þegar stofnað var til velferðarráðuneytisins og tvö ráðuneyti runnu saman í eitt var þessi leið farin. (RR: Nei, starfsmönnum … ráðuneytisstjórum sagt upp og auglýst.) Ég tel að með þessu sé á engan hátt verið að brjóta lög eða fara á svig við góða stjórnsýslu.

Hér hefur verið óskað eftir því að málið komi til heilbrigðisnefndar á milli 2. og 3. umr. Við því verður orðið. Ég mun stuðla að því að heilbrigðisnefnd geti átt fund strax á morgun svo hægt sé að ljúka þessu máli, hæstv. forseti.