139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[17:09]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin en við erum greinilega algerlega ósammála um þetta bruðl í húsnæðismálunum. Sú staða getur augljóslega komið upp að setja þurfi 36 milljónir aukalega í húsnæðiskostnað. Það blasir alveg við. Það kostar 30 milljónir að flytja, eru eðlilegar skýringar á því? Þetta eru 66 milljónir. Þetta eru 10% af fjárlögum stofnunarinnar. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég lít á þessa umsögn fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins þannig að þetta sé ákveðin ábending til okkar í umfjöllun um þetta mál að það geti þurft að skera meira niður, enda stendur það skýrum stöfum í umsögninni, um allt að 2% aukalega út af þessu og jafnvel 6% ef við sitjum uppi með leigusamninginn. (Gripið fram í: Eins langt og …) Það má ekki segja upp fólki. Við erum að fara að bruðla með peninga, það er mín skoðun, út af húsnæðismálum og ég spyr þingmanninn: Hvar á hagræðingin að fara fram, hvar verður þessi fjárhagslega hagræðing?

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann sem er einstaklega vönduð kona: Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því að með því að bruðla með peninga í húsnæðismálum muni það einmitt bitna á faglegu starfi og gæðum þess vegna niðurskurðar sem verður út af því að það verður ekki hægt að bregðast öðruvísi við á árinu 2012? Hver er skoðun hv. þingmanns á því? Telur ekki hv. þingmaður að það þurfi hugsanlega að segja upp sex til átta starfsmönnum á þessum stofnunum vegna bruðls í húsnæðiskostnaði?