139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[17:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er ekki andsvar í sjálfu sér þó að ræðuformið heiti andsvar. En þar sem hv. þm. Mörður Árnason var með mjög góða hugleiðingu um nafngiftir og beindi til mín þeirri spurningu hvort nafn stofnunarinnar hefði ekki verið skoðað í heilbrigðisnefnd þá er því til að svara að nafngiftin var svo sannarlega skoðuð í heilbrigðisnefnd. Farið var yfir nafnið, stofnunina og embætti landlæknis og hvernig því öllu mætti fyrir koma. Þetta samkomulag varð niðurstaðan eftir töluverða umræðu og skoðun þar sem ljóst var í byrjun að nafnið „embætti landlæknis og lýðheilsu“ gekk ekki og varð þá að finna nýtt nafn. Margir komu að því máli. Því miður leitaði heilbrigðisnefnd ekki til hv. þm. Marðar Árnasonar um liðsinni í því vandasama verki en ég trúi því að þetta nafn venjist vel. Stofnunin hefur fengið gælunafn hjá okkur í heilbrigðisnefnd; hvort það kemur til með að festast við hana eða ekki skal ég láta ósagt og ég ætla ekki einu sinni að nefna það hér því að það kemur í ljós undir hvaða nafni hún gengur. Landlæknir – lýðheilsa er það nafn sem varð fyrir valinu og til að svara hv. þingmanni þá var þetta virkilega skoðað.