139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[17:34]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að segja í upphafi máls míns að ég er á annarri skoðun en hv. þm. Mörður Árnason í þessu máli. Ég hef minni áhyggjur af nafni á stofnuninni en starfsfólki stofnunarinnar. Án þess að ég sé að gera lítið úr því að menn þurfi að ræða það málefni sem hann tók fyrir verð ég að viðurkenna að mér fannst þetta mjög athyglisverð umræða, sérstaklega í ljósi þeirra alvarlegu tíðinda sem gætu verið í uppsiglingu.

Út af andsvari hv. þm. Þuríðar Backman áðan við mig eða réttara sagt í svari hennar vil ég fyrst segja um leigusamninginn hjá landlæknisembættinu, sem er þannig að eftir eru 17 ár af honum, að hann kostar 24 milljónir á ári. Hv. þingmaður segir að það sé mjög mikilvægt að komast frá þeim samningi. Við getum verið sammála um það. En ég tel mjög mikilvægt að við horfumst í augu við hinn blákalda veruleika sem er sá að samningnum er ekki hægt að segja upp og það liggur ekki fyrir hvernig er hægt að nýta húsnæðið öðruvísi. Það er hinn blákaldi veruleiki, sama hvað okkur finnst um hann. Það að þessi samningur var gerður fyrir 7 árum til 25 ára með þessum ákvæðum er staðreynd sem blasir við okkur. Þess vegna verðum við að átta okkur á því ef við förum þá leið sem lögð er til í þessu frumvarpi, að sameina þessar stofnanir með faglegum ávinningi og allt í lagi með það, en ég hef bara verulegar áhyggjur af því fyrir árið 2012 svo að það komi skýrt fram, að nú er hagræðingarkrafan 9% á þessar stofnanir fyrir árið 2011 og við erum með 36 milljóna aukakostnað í farvatninu — annars vegar 12 milljónir, sem að mínu mati er verið að bruðla með með því að taka stærra húsnæði undir stofnunina en þarf, og hins vegar erum við með samning sem er óuppsegjanlegur, hvað sem okkur finnst um það, og kostar ríkið 24 milljónir á ári; þetta eru 36 milljónir plús 30 milljónir sem kostar að flytja stofnunina, það eru eðlilegar skýringar á því. Það er 10% kostnaður aukalega við heildarfjárveitingu stofnunarinnar fyrir árið 2011 þó að fram komi að sá 30 milljóna kostnaður sem á að greiða vegna flutningsins muni verða tekinn af uppsöfnuðum heimildum sem stofnunin á inni. Þetta blasir þannig við mér, virðulegi forseti, að á árinu 2012 — við vitum alveg hvert verkefni okkar er — verður reynt að ná jöfnuði í ríkisfjármálum. Við verðum að reyna það. Ég held meira að segja að þegar vinstri menn eru farnir að tala um að skattarnir séu hugsanlega komnir í hámark þá séu þeir komnir langt upp fyrir hámark. Sá veruleiki liggur fyrir að við þurfum að skera meira niður árið 2012.

Ég sit í hv. fjárlaganefnd og þykist gera mér sæmilega grein fyrir því, ég legg mig a.m.k. fram við það, ekki bara af þeim umræðum sem voru í gær og í dag um það sem er að gerast í uppbyggingunni í atvinnulífinu, í hagvextinum, í sambandi við atvinnuleysið og allt saman, að það bendir því miður ekkert til annars en að árið 2012 verði blóðugt niðurskurðarár. Það er hinn blákaldi veruleiki. Þess vegna kem ég því skýrt á framfæri að það að bruðla með 36 milljónir í húsnæðiskostnað kostar að við þurfum væntanlega að segja upp sex til átta konum til viðbótar, fagfólki. Mér finnst ekkert réttlæta það, ekki neitt. Þó svo að menn séu þeirrar skoðunar að þeir vilji að stofnunin fari í annað húsnæði sem hafi einhverja sögu og þar fram eftir götunum gef ég ekkert fyrir það, ekki neitt. Ég virði og met störfin það mikils að við megum ekki bruðla með peninga til þess að þurfa að segja enn fleira fólki upp, mér finnst það algerlega óásættanlegt. Mér finnst óásættanlegt að heilbrigðisráðuneytið skuli ekki geta, eftir að hafa unnið að málinu í heilt ár, lagt fram gögn þar sem sýnt er fram á hagræðinguna. Það er algerlega óþolandi. Þess vegna held ég að hv. þingmenn sem greiða að lokum atkvæði um þetta frumvarp verði að gera sér grein fyrir að með því að fara þessa leið sé ekkert sem bendi til annars en verið sé að fórna sex til átta störfum, kvennastörfum, í heilbrigðisstétt. Er ekki nóg komið af því? Það er verið að tala um að við þurfum að læra af hruninu og öllu sem því fylgir. Við erum ekki að læra neitt eða alla vega ekki þeir sem ætla að samþykkja þetta svona.

Til viðbótar blikka öll viðvörunarljós. Við vorum að fá umsögn frá fjármálaráðuneytinu eða fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins og ég lít svo á að þar sé akkúrat verið benda okkur á þær staðreyndir sem eiga að blasa við okkur. Þær blasa við mér alla daga þar sem ég sit í fjárlaganefnd. Við erum nýbúin að fá í hendur, fyrir örfáum dögum, ábendingar frá fjármálaráðuneytinu um að Sjúkratryggingar Íslands muni ekki ná að halda fjárlög þessa árs — þar munu 2 milljarðar væntanlega standa út af. Hvers vegna er það? Það er ekki vegna þess að Sjúkratryggingar séu ekki vel rekin stofnun af því góða fólki sem þar er. Nei, það er vegna óraunhæfra krafna frá ráðuneytinu um hvernig eigi að bregðast við niðurskurðinum. Sama gerðist árið 2010, talan var nánast sú sama, tæpir 2 milljarðar. Fjárlagagatið fram undan er upp á nokkra tugi milljarða. Það er verkefnið. Þess vegna finnst mér mjög sárt að þurfa að reka enn fleiri konur úr vinnu. Er ekki nóg komið? Í umræðunum í fyrradag blöstu staðreyndirnar við. Það er búið að fækka á Landspítalanum um 670 störf. Á sama tíma höfum við efni á að bruðla með peninga í húsnæðismál. Hver er afleiðingin? Hún er sú að við þurfum enn eina ferðina að reka konur úr heilbrigðisstofnunum. Það er dálítið kúnstugt í allri þeirri farsakenndu umræðu margra stjórnarþingmanna um að núna eigi að vinna eftir kynjaðri fjárlagagerð eða hvað þessi vitleysa heitir öll. Það var staðfest í svari hæstv. fjármálaráðherra að verið er að moka peningum inn í stjórnsýsluna, inn í ráðuneytin til að vinna þar pappíra um kynjaða fjárlagagerð og á sama tíma eru konur reknar úr heilbrigðisstofnunum um allt land. Þetta segir allt um innihaldslausa frasa núverandi stjórnarmeirihluta.

Það var merkilegt að hlusta á hv. þm. Mörð Árnason áðan. Það væri betra fyrir hann að líta sér nær og horfast í augu við staðreyndir, að tala í 20 mínútur um nafn á stofnuninni en hafa engar efasemdir eða áhyggjur af því hvað verður um starfsfólk hennar ef bruðlið og vitleysan nær fram að ganga.