139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

stofnun björgunarskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

306. mál
[17:55]
Horfa

Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Frú forseti. Ég flyt þingsályktunartillögu um undirbúning að stofnun björgunarskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Meðflutningsmenn mínir á þessu máli eru hv. þm. Arndís Soffía Sigurðardóttir, Þuríður Backman, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Árni Þór Sigurðsson. Tillaga sama efnis var flutt á 138. löggjafarþingi, var ekki afgreidd en er nú endurflutt lítið breytt.

Með tillögunni er lagt til að dómsmála- og mannréttindaráðherra, nú innanríkisráðherra, verði í samvinnu við utanríkisráðherra falið að skipa starfshóp sem vinni að undirbúningi stofnunar björgunarskóla Sameinuðu þjóðanna og lagt til að starfshópurinn skili ráðherra tillögum eigi síðar en 1. desember 2011.

Ástæða flutnings tillögu sem þessarar er að á Íslandi er mikil þekking á björgunarmálum, bæði hjá opinberum aðilum og félagasamtökum. Eins og við þekkjum, frú forseti, er náttúra og allar aðstæður hér á Íslandi þannig að óvíða í heiminum er að finna jafnfjölbreytilegar aðstæður bæði til æfinga og þátttöku í raunverulegum björgunarverkefnum. Þannig hafa íslenskir björgunarmenn reynslu af björgun úr sjávarháska, eru vanir að takast á við foráttuveður á landi, snjóflóð, jarðskjálfta, björgun af jökli, umfangsmiklar leitir á erfiðum landsvæðum o.s.frv. Þá hefur einnig skapast í landinu mikil þekking á viðbrögðum við eldgosum líkt og sýndi sig í tengslum við eldgosin í Eyjafjallajökli á síðasta ári og flóð sem þeim tengdust.

Íslenskar björgunarsveitir hafa einnig getið sér gott orð á alþjóðavettvangi. Þess er skemmst að minnast að íslenska rústabjörgunarsveitin, sem heitir ICE-SAR, tók þátt í björgunarverkefni á Haítí á síðasta ári við góðan orðstír, og íslenskar sveitir hafa tekið þátt í fleiri slíkum verkefnum.

Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur frá árinu 1999 tekið þátt í samræmingarstarfi Sameinuðu þjóðanna og rekið alþjóðabjörgunarsveit félagsins sem var stofnuð með samkomulagi milli Landsbjargar, utanríkisráðuneytis og dómsmálaráðuneytis. Hægt yrði að byggja á þeirri dýrmætu reynslu og þekkingu sem til er og á grundvelli þeirra sambanda sem þegar hefur verið stofnað til.

Tengingin við Háskóla Sameinuðu þjóðanna byggir á því að hér á landi eru nokkrar námsstofnanir innan Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem hafa verið starfræktar fyrir nemendur frá þróunarríkjum þar sem boðið er upp á nám á sviðum þar sem Íslendingar hafi náð miklum árangri.

Háskóli Sameinuðu þjóðanna var stofnaður árið 1975 og hefur höfuðstöðvar í Tókíó, enda þótt starfsemi hinna ýmsu deilda og undirstofnana skólans sé dreifð um allan heim. Markmið skólans er einkum að aðstoða þróunarlönd á fjölbreytilegum sviðum en einnig í öðrum verkefnum.

Hér á landi hefur Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna verið starfandi frá 1979. Hér er starfandi Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem hóf störf 1998, og haustið 2009 hóf göngu sína Jafnréttisskólinn sem einnig er starfræktur í tengslum við sömu stofnun.

Við nám í björgunarskóla Sameinuðu þjóðanna mætti leggja áherslu á verklega og bóklega þætti, hvort heldur væri sem vettvangsvinnu, þátttöku í raunverulegum aðgerðum á vettvangi, fyrirlestrum, verkefnaskilum, áætlanagerð eða öðru. Þá væri einnig hægt að gera ráð fyrir rannsóknar- og þróunarvinnu á sviði björgunarmála en slíkt gæti einmitt skipt verulega miklu máli.

Það má til gamans geta þess, frú forseti, að fyrir sjö árum birti fyrsti flutningsmaður þessarar tillögu blaðagrein undir nafninu „Björgunarskóli Sameinuðu þjóðanna“ sem er birt sem fylgiskjal með þessari tillögu. Þar var reifuð hugmyndin um slíkan skóla sem mætti til að mynda reka í Keflavík og nýta þau mannvirki sem eru á Keflavíkurflugvelli eftir brottför Bandaríkjahers. Við undirbúning og skipulagningu slíks verkefnis væri rétt að sækjast eftir samvinnu við stofnanir eins og Landhelgisgæsluna, almannavarnahluta ríkislögreglustjóra, Veðurstofuna, sjúkrahúsin og háskólastofnanir auk Landsbjargar og sjómannasamtakanna. Síðast en ekki síst væri með stofnun björgunarskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi um að ræða uppbyggilegt framtak til þess að bæta ímynd lands og þjóðar á alþjóðavettvangi og þarft framlag til alþjóðasamstarfs.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum, frú forseti, að atvinnuástand á Suðurnesjum hefur verið mikið til umræðu á síðustu missirum og ljóst að þar þarf að grípa til aðgerða. Innanríkisráðherra og ríkisstjórnin raunar öll hafa viðrað ýmsar hugmyndir um verkefni, þar með talið að skoða flutning Landhelgisgæslunnar eða einhvern hluta verkefna hennar til Suðurnesja. Samlegðaráhrifin sem kæmu af skóla eins og þessum væru augljós. Með stofnun björgunarskóla Sameinuðu þjóðanna mundi fjölga störfum á svæðinu sem ekki væri vanþörf á auk þess sem þjónusta í kringum skólann yrði væntanlega nokkur. Fyrir á svæðinu er mikil þekking á þessu sviði og slíkur skóli yrði, eins og ég sagði áðan, stoð undir atvinnulífið þar syðra.

Hlutverk þessa starfshóps yrði m.a. að meta hvaða áhrif stofnun sem þessi gæti haft á atvinnulífið á svæðinu og athuga hvernig hægt væri að ganga frá samningum við Háskóla Sameinuðu þjóðanna um þetta verkefni. Ég tel að með stofnun slíkrar undirdeildar mundum við renna enn þá styrkari stoðum undir þá starfsemi sem Háskóli Sameinuðu þjóðanna hefur hér á Íslandi en slíkt er afar mikilvægt. Við skulum ekki gleyma því að eins og staðan er í dag fer verulegur og drjúgur hluti af þróunaraðstoð Íslendinga í gegnum þessar stofnanir og því ekki að ófyrirsynju að reyna með einhverju móti að stofna til skóla eins og þessa.

Ég geri ráð fyrir því að í umsögnum og umfjöllun nefndar fáist ítarlegri umfjöllun um málið og ég vona að það fái það brautargengi sem það sannarlega á skilið hér á Alþingi.