139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

mat á skilaverði eignasafns Landsbanka Íslands hf.

563. mál
[18:13]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ástæðan fyrir því að ég vek máls á þessu er sú að mér hefur skilist að ýmsir kröfuhafar, aðrir en íslenska ríkið, í þrotabúið hafi einmitt óskað eftir því að fá að gera sitt eigið mat á virði eigna þrotabúsins en það hafi verið mjög torsótt. Það er af þeirri ástæðu sem ég velti þessu upp.

Ég vil taka það skýrt fram að ég styð hv. þingmann í þeirri viðleitni að fá sem allra bestar upplýsingar um stöðu eigna búsins. Hér er komið fram þingmál, sem hann hefur mælt fyrir, um að við skoðum þann möguleika að fjármálaráðherra feli tveimur sjálfstæðum aðilum að gera slíka úttekt. Þetta eru þau atriði sem ég tel að þurfi að skoðast í nefndinni, þ.e. hvort við á annað borð getum komið fjármálaráðherranum með slíkri ályktun frá þinginu í þá stöðu gagnvart þrotabúinu að fá að kanna eignirnar með þessum hætti. Það hefur þrotabúið ekki leyft öðrum kröfuhöfum að gera eftir því sem mér hefur skilist.

Ég hef ekki spurst sérstaklega fyrir um þessa Deloitte-skýrslu en það var sem sagt á fundi með kröfuhöfum sem skilanefndin kynnti hana sérstaklega. Fram kom á blaðamannafundi sem haldinn var í fjármálaráðuneytinu af samninganefndinni að skilanefndin hefði fjallað um það á kröfuhafafundinum í London að mat þessa endurskoðunarfyrirtækis hefði staðfest að virði eignanna væri það sem skilanefndin hefði haldið fram til þessa. Sem betur fer hefur skilanefndin ekki orðið uppvís að neinni sérstakri bjartsýni í virðismati sínu heldur hefur það frekar farið hækkandi eftir því sem fram líða stundir (Forseti hringir.) og vonandi verður framhald á því.