139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

mat á skilaverði eignasafns Landsbanka Íslands hf.

563. mál
[18:15]
Horfa

Flm. (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir að við vonum að sjálfsögðu að eignasafnið eigi eftir að reynast verðmætara en við höldum í dag. Engu að síður er ákveðin áhætta í því fólgin og við höfum séð virði þess hreyfast nokkuð til. Ef ég man rétt munar 3 milljörðum á matinu sem gert var vorið 2010 og því nýjasta en hins vegar 15 milljörðum eða töluvert meira, ég man ekki alveg töluna, á matinu sem gert var haustið 2010. Það er ljóst að það er hreyfing á mati eignasafnsins.

Sú tillaga sem hér er sett fram er eingöngu til þess gerð að við fáum meiri trúverðugleika á eignasafninu. Hún er alls ekki sett fram í þá veru að reyna að rýra vinnu skilanefndarinnar með einhverjum hætti. Þetta er hins vegar svo risavaxið mál að við verðum að hafa eins góðar upplýsingar og við mögulega getum. Ef einhver vafi er í okkar huga eða einhvers annars um að matið geti verið lægra eða hærra þá eigum við að leita allra leiða til að fá óháð mat því að betur sjá augu en auga í þessu tilviki eins og mörgum öðrum.

Það kann hins vegar vel að vera að við fáum ekki aðgang að þessum upplýsingum með hefðbundnum leiðum og að fjármálaráðherra komist ekki í þau gögn sem þarf eða menn á hans vegum ef það má orða það þannig. Það hlýtur hins vegar að vera mjög undarlegt og ég lýsi því alla vega sem minni skoðun að mér finnst mjög sérstakt ef skilanefnd bankans gerir ekki allt sem hún getur til að hæstv. fjármálaráðherra eða fyrirtæki á hans vegum eða einstaklingar fái aðgang að þessum gögnum vegna þeirrar ábyrgðar sem við erum að taka á okkur.