139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

menntun og atvinnusköpun ungs fólks.

449. mál
[18:28]
Horfa

Flm. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni kærlega fyrir hans jákvæðu orð og viðbrögð við þessari tillögu. Hann veltir því m.a. upp hvort hægt sé að gera skurk í því að þeir sem núna eru á atvinnuleysisskrá geti fengið stuðning úr Atvinnuleysistryggingasjóði þegar þeir stíga það skref að fara í nám. Ég held að það sé reyndar mjög mikilvægur þáttur í því að ná árangri í þessu máli. Því fylgja vandamál bæði þegar menn fara af vinnumarkaði í nám og sömuleiðis af bótum og í nám, m.a. vegna þess að námslánakerfið er byggt upp þannig að menn þurfa að hafa sýnt námsárangur áður en þeir fá greidd út námslánin. Ein leiðin til að setja undir þann leka er að ákveðin meðgjöf komi úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sérstaklega fyrsta missirið áður en menn geta sýnt fram á það að þeir nái tilætluðum árangri í náminu.

Ég er því mjög fylgjandi og held að það sé reyndar þegar í umræðunni milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins að finna ákveðnar leiðir í þessu sambandi sem vonandi skila sér í raunverulegum aðgerðum fyrir þennan hóp fyrr en síðar.