139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

menntun og atvinnusköpun ungs fólks.

449. mál
[18:31]
Horfa

Flm. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir það með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að hér þurfa menn að bretta upp ermar og hreyfa sig hratt. Það er býsna mikið undir. Eins og hv. þingmaður kom inn á höfum við þessar upplýsingar m.a. úr könnun sem Samtök iðnaðarins létu vinna um áramótin sem sýnir að það er staðfastur vilji hjá fyrirtækjum í iðngreinum að bæta við sig, sérstaklega iðn- og tæknimenntuðu fólki, bæði háskólafólki og fólki með starfsmenntun.

Hinn valkosturinn er þó sannarlega á borðinu og hann er okkur mjög hættulegur, sá að þessi fyrirtæki sem mörg eru í útflutningsiðnaði, og mörg hver hafa nú þegar sett upp hluta af starfsemi sinni erlendis, velji þann kost að taka út vöxtinn í útlöndum með þeim afleiðingum sem það hefur fyrir hagkerfi okkar og atvinnulíf. Þessi ógnun er sannarlega fyrir hendi og mörg af okkar sterkustu fyrirtækjum hafa því miður í vaxandi mæli á undanförnum missirum stækkað meira í útlöndum en hér heima. Það er kannski eitt alvarlegasta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir í efnahags- og atvinnumálum okkar að snúa þeirri þróun við þannig að þessi lykilfyrirtæki sem ætla að bera uppi verðmætasköpun í landinu sjái að þau geta tekið út vöxtinn heima en þurfi ekki að flytja út, ef svo má segja.