139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

norræna hollustumerkið Skráargatið.

508. mál
[18:42]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessi jákvæðu viðbrögð. Varðandi transfitusýrurnar tóku Danir upp bann við miklum transfitusýrum í mat fyrir nokkrum árum. Ísland er önnur þjóðin í heiminum sem tekur það upp og nú berast þær fréttir að búið er að flytja málið í Svíþjóð líka, í sænska þinginu, þannig að vonandi taka sem flest ríki upp transfitusýrubann eins og við og Danir höfum gert.

Varðandi Skráargatið er það að ýmsu leyti líkt umhverfismerkinu Svaninum. Það er líka samnorrænt umhverfismerki sem vörur geta ekki fengið nema að uppfylla ákveðin skilyrði. Það er alveg eins hugsað, maður þarf þar að uppfylla ákveðin skilyrði. Hér þarf að uppfylla skilyrði um magn sykurs og salts og fleira sem ekki má fara yfir ákveðna prósentu.

Það er ljóst að því miður er offita að verða eitt alvarlegasta heilbrigðisvandamál á Íslandi. Samkvæmt upplýsingum frá OECD þjáist fimmtungur landsmanna af alvarlegustu tegund ofþyngdar og eins og ég sagði áðan erum við fjórða feitasta þjóð í Evrópu. Öll Norðurlöndin standa frammi fyrir áskorunum varðandi lífsstíl og mataræði. Það er nokkuð flókið að eiga við það þannig að það er gríðarlega brýnt að gera neytendum kleift að kaupa í matinn svo þeir geti verið fljótir að kaupa í matinn og keypt um leið hollan mat í staðinn fyrir að vera að rýna alltaf í innihaldslýsingarnar.

Það er rétt sem hæstv. utanríkisráðherra segir, þetta er neytendamál. Ég hef reynt að beita mér í þeim málum og hef mjög mikinn áhuga á slíku. Ég vil nefna eitt í viðbót, bann við reykingum á veitinga- og skemmtistöðum sem er líka gríðarlega mikilvægt í þessu máli. Sú er hér stendur mun flytja fleiri mál af þessum toga. En ég tel að það sé þverpólitísk samstaða um að ljúka málinu og kalla eftir samstöðu m.a. úr þingflokki Samfylkingarinnar, (Forseti hringir.) það er samfylkingarmaður á málinu, hv. þm. Mörður Árnason. Það er mjög brýnt að allir sem vettlingi geta valdið ýti á eftir því að málið verði samþykkt.