139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

virkjun neðri hluta Þjórsár.

540. mál
[18:45]
Horfa

Flm. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um virkjun í neðri hluta Þjórsár og er þar vísað til virkjana sem þegar hafa verið metnar út frá umhverfisáhrifum og er í raun ekkert að vanbúnaði að taka ákvörðun um og hefja framkvæmdir við. Um er að ræða Hvammsvirkjun sem er 82 megavött að afli, Holtavirkjun, 53 megavatta, og Urriðafossvirkjun sem er 130 megavött. Samtals eru þetta um 265 megavött.

Þetta er í annað skipti sem sambærilegt frumvarp er lagt fram. Markmiðið með framlagningu þess er að taka af allan vafa um vilja Alþingis til að ráðast þegar í framkvæmdir á þessu svæði með það að markmiði að stuðla að aukinni atvinnuuppbyggingu í landinu og þá ekki síst í sunnanverðu landinu.

Þessar virkjanir hafa þegar, eins og ég sagði áðan, farið í gegnum mat á umhverfisáhrifum og uppfylla öll skilyrði til umhverfissjónarmiða, fóru í gegnum þetta mat án athugasemda og voru settar á rammaáætlun. Það er almenn skoðun manna að þó að rammaáætlun liggi ekki enn fyrir sé hér um einhverja vænlegustu virkjunarkosti okkar að ræða og með mjög litlum áhrifum á umhverfið þar sem fyrst og fremst er um að ræða rennslisvirkjanir. Þær eru fjárhagslega hagkvæmar og munu að sjálfsögðu ýta mjög undir íslenskt atvinnulíf sem er okkur gríðarlega mikilvægt, ekki síst á þeim erfiðu tímum sem nú eru. Hér þarf að beita öllum ráðum til að auka hagvöxt í þessu landi og efla atvinnustig. Ekkert er betur til þess fallið. Um það eru allir aðilar sammála, erlendir sérfræðingar sem innlendir sem hafa tjáð sig um þessi mál, að ekkert er betur til þess fallið fyrir okkur en að nýta orkuauðlindirnar í landinu.

Staðan í rammaáætlun er þannig, og það segir reyndar í stjórnarsáttmálanum, að ekki verði teknar ákvarðanir um frekari virkjanir í landinu fyrr en rammaáætlun liggi fyrir. Að mati okkar, flutningsmanna þessa frumvarps, fær slíkt ekki staðist og getur ekki staðist til lengdar. Í dag er hv. iðnaðarnefnd að vinna að rammalöggjöf, getum við sagt, utan um rammaáætlun og vonir standa til þess að þeirri vinnu ljúki á þessu vorþingi þó að það mál sé engan veginn til lykta leitt enn. Rammaáætlun er ekki komin í gegn með því einu vegna þess að þeir vinnuhópar sem eru að undirbúa og vinna að gerð hennar eiga nokkra vinnu eftir og svo liggur fyrir nokkuð óumdeilt að rammaáætlun þurfi að fara í svokallað umhverfismat áætlana. Verði það að veruleika sem allt bendir til er alveg ljóst að slíkt ferli mun taka einhverja mánuði og alveg örugglega munu koma upp í því ferli einhver ágreiningsmál. Ekki síst í ljósi þess hve mikil óeiningin er við ríkisstjórnarborðið í þessum málaflokki má reikna með að ákveðnir hæstv. ráðherrar, sem hafa áður sýnt slíka tilburði í vinnubrögðum sínum gagnvart þessum málum, muni reyna að leggja stein í götu þeirra eins og hægt er og tefja allt matsferli og alla ákvarðanatöku eins og mögulegt er. Það er því óvarlegt að áætla annað en að rammaáætlun verði ekki tilbúin fyrr en í fyrsta lagi í lok þessa árs og mjög líklega ekki fyrr en á næsta ári. Ég trúi ekki öðru en að þeim aðilum sem styðja þessa ríkisstjórn og eru áfram um að fara í verklegar framkvæmdir, og uppfylla þannig loforð um að efla atvinnu sem m.a. hafa verið gefin aðilum vinnumarkaðarins, sé á móti skapi að málin tefjist í allan þennan tíma. Það getur orðið okkur mjög dýrkeypt, og nóg er biðstaðan og stöðnunin í þessum málum orðin okkur dýrkeypt nú þegar.

Staðan í dag er þannig að þeir sem hafa það verkefni með höndum að selja Ísland sem land atvinnutækifæra á vettvangi ríkisstjórnarinnar og vettvangi hins opinbera — þar er ég að vitna fyrst og fremst til Fjárfestingarstofu og þeirra aðila innan utanríkisráðuneytisins og iðnaðarráðuneytisins sem hafa með þessi mál að gera — hafa komið á fund iðnaðarnefndar og gert grein fyrir því að eftirspurn eftir orku frá erlendum aðilum og fyrirspurnir um uppbyggingu á atvinnurekstri á Íslandi hafi aldrei verið eins miklar og í dag. Það er auðvitað mjög jákvætt, enda ekki óeðlilegt, staðan er þannig að það er ódýrt að fjárfesta á Íslandi í dag og með stöðu krónunnar eins og hún er er þetta mjög vænlegt. Orkuverð erlendis er á uppleið og það á kannski að gefa okkur svigrúm hérna til að hækka (Gripið fram í: Ekki í dag.) orkuverðið á þeirri orku sem við höfum fram að bjóða.

Landsvirkjun hefur tekið undir þessi sjónarmið. Þar á bæ verða menn varir við þennan mikla áhuga en hendur þeirra eru bundnar sem og annarra orkusölufyrirtækja vegna þess að engin ákvörðun er tekin um frekari virkjanir. Þannig getur Landsvirkjun t.d. ekki svarað neinum fyrirspurnum um sunnanvert landið eins og sakir standa og það eina sem þeir geta beint sínum kröftum að er að eiga viðræður við aðila um aðstæður, setja atvinnurekstur á Bakka við Húsavík eða annars staðar í Þingeyjarsýslu. Þetta ferli er langt, það tekur ekki stuttan tíma að ganga frá samningum og finna réttu fjárfestana á þessum vettvangi.

Hér er um fjölbreyttan iðnað að ræða, stór og smá fyrirtæki í mjög fjölbreyttum iðnaði, og það þarf að velja úr. Svona ferli tekur nokkur ár. Þess vegna er mjög mikilvægt að þetta færiband okkar stoppi ekki á þessum vettvangi, heldur haldi áfram á einhverjum hraða og að ákvarðanir séu teknar í stjórnsýslunni þannig að þeir sem að þessu starfa geti haldið áfram vinnu sinni og þurfi ekki að vísa mönnum frá. Við erum ekki ein í heiminum. Auðvitað eru þessi fyrirtæki víða að leita hófanna og þó að við séum vænleg að einhverju leyti sem kostur til að byggja upp framtíðaratvinnustarfsemi, þá kannski í dag fyrst og fremst út frá grænni orku sem við getum boðið, eru auðvitað aðrir þættir mjög neikvæðir hérlendis og á það ekki síst við óstöðugleikann á hinu pólitíska sviði. Þær umræður sem hafa verið af hálfu ríkisstjórnarinnar um að taka fyrirtæki hreinlega eignarnámi ef henni líkar ekki við fyrirtækin sem þau fjárfesta í fæla alveg örugglega frá okkur í dag og síðan sú skattstefna sem er hér rekin sem er þannig að Ísland flokkast undir land þar sem er pólitískur óstöðugleiki.

Það er af sem áður var þegar einn af höfuðkostum okkar fyrir erlend fyrirtæki til að flytja starfsemi sína til landsins var pólitískur stöðugleiki á vinnumarkaði. Því gátu menn treyst og það var nokkuð sem við höfðum í forskot á mörg önnur lönd sem buðu kannski vinnuafl á lægri launum og jafnvel lægra orkuverð en við gerum. Við búum við þetta umhverfi í dag. Samt sem áður er áhuginn mikill og fyrirtæki vilja koma hingað, vilja skoða þetta, en á meðan staðan í ákvörðun um frekari virkjanir í landinu liggur á ís gerist lítið. Fyrirtækin og þær stofnanir sem hafa með þetta að gera geta ekki gefið nein svör og þar með fara menn auðvitað að leita annað.

Landsvirkjun ákvað árið 2007 að orka frá þessum virkjunum mundi ekki fara til álvera. Í tilkynningu frá stjórn Landsvirkjunar 2007 segir, með leyfi forseta

„Stjórn Landsvirkjunar telur mikilsvert að fyrirtækið fái sem hæst verð fyrir raforkuna, dreifi áhættu og auki fjölbreytni viðskiptavina sinna. Landsvirkjun hefur því ákveðið að hefja viðræður um raforkusölu við fyrirtæki sem hyggjast byggja upp netþjónabú á Íslandi. Einnig eru í undirbúningi viðræður við fyrirtæki á sviði kísilhreinsunar fyrir sólarrafala. Ekki er enn hægt að greina frá því hver þessi fyrirtæki eru. Líkleg staðsetning þessarar starfsemi verður á Suðurlandi og Reykjanesi. Áhersla Landsvirkjunar á netþjónabú og sólarkísil byggist á því að vænta má hærra raforkuverðs í þeim viðskiptum en við aðra stórkaupendur. Landsvirkjun mun þess vegna ekki ganga til samningaviðræðna að sinni við fyrirtæki sem hyggja á byggingu nýrra álvera á Suður- eða Vesturlandi.“

Ég tel að þessi samþykkt sé gerð við slíkar aðstæður árið 2007 að full ástæða sé fyrir Landsvirkjun að endurskoða þetta. Ég er ekki endilega að mæla fyrir því að hér verði fjölgað hugmyndum um álver, síður en svo. Ég tek undir það sjónarmið Landsvirkjunar að það þurfi að auka fjölbreytnina í íslenskum iðnaði. Við þurfum að líta sem víðast til stórra og smárra fyrirtækja í þeirri framtíðaruppbyggingu sem hér verður. En það er mikilvægt að Landsvirkjun múlbindi sig ekki við þessa ákvörðun tekna árið 2007 frekar en aðrar ákvarðanir sem við tókum á þeim tíma. Það mikið vatn hefur runnið til sjávar og aðstæður eru með það öðrum hætti núna að við verðum með opnum huga að ganga til viðræðna og til sölu á þeirri raforku sem mögulega verður í pípunum.

Ríkisstjórnin stendur virkilega í vegi þróunar á þessu sviði, því miður. Það er alveg ömurlegt að vandinn sem við erum að glíma við skuli vera svo heimatilbúinn sem raun ber vitni. Í stöðugleikasáttmálanum frá 25. júní 2009 segir m.a., með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun greiða götu þegar ákveðinna stórframkvæmda samanber þjóðhagsáætlun, svo sem framkvæmda vegna álvera í Helguvík og Straumsvík. Undirbúningsvinnu verði hraðað vegna áforma sem tengjast fjárfestingu í meðalstórum iðnaðarkostum, svo sem gagnaverum og kísilflöguframleiðslu. Kappkostað verður að engar hindranir verði af hálfu stjórnvalda í vegi slíkra framkvæmda eftir 1. nóvember 2009.“

Þetta nefni ég hér og vitna til þessarar bókunar ríkisstjórnarinnar í stöðugleikasáttmálanum, ekkert af þessu hefur gengið eftir hjá hæstv. ríkisstjórn. Er þar skemmst að minnast frammistöðu ríkisstjórnarinnar, þá sérstaklega hæstv. fjármálaráðherra og fjármálaráðuneytisins, þegar kemur að því að ljúka málum gagnvart því að starfsemi netþjónabúa geti skotið rótum á Íslandi. Allan fyrravetur börðumst við í iðnaðarnefnd við það að koma þessu máli í gegn. Allan tímann lá það fyrir að til þess að samkeppnisstaða þessara fyrirtækja væri jöfn við sambærilegan iðnað í Evrópu þyrfti að breyta reglum um virðisaukaskatt og það var með harmkvælum sem við komum þessu máli loksins í gegnum þingið á vordögum í fyrra. Ég verð að segja að þegar við kláruðum þetta mál í þinginu var það ekki fyrr en vinstri grænir áttuðu sig á því að það var kominn nýr meiri hluti fyrir málinu að þau samþykktu á endanum að hleypa því í gegn. En enn þvælast hlutirnir eitthvað fyrir, efndirnar hafa ekki gengið fyllilega eftir af hálfu fjármálaráðuneytisins og enn er beðið ákveðinna úrlausna þar. Það er auðvitað nauðsynlegt að við tökum tillit til nýrrar starfsemi sem þessarar ef við ætlum í alvöru að láta hana skjóta rótum og lögum samkeppnisstöðu hennar að því sem gerist á þeim svæðum sem okkur er ætlað að keppa við.

Þann 29. janúar 2010 synjaði umhverfisráðherra skipulagsbreytingum sem snúa að virkjunum í neðri hluta Þjórsár staðfestingar. Annars vegar var um að ræða tillögu Skeiða- og Gnúpverjahrepps um breytingu á aðalskipulagi hreppsins og hins vegar aðalskipulag Flóahrepps fyrir árin 2006–2018 en ráðherra samþykkti skipulagið að öðru leyti en því sem laut að virkjunum í neðri hluta Þjórsár. Þessar ákvarðanir ráðherra höfðu alvarlegar afleiðingar í för með sér varðandi áform um virkjanir í neðri hluta Þjórsár, en í ljósi þess hæstaréttardóms sem felldur var árið 2010 þar sem ákvörðun ráðherra var dæmd ólögleg er nauðsynlegt og eðlilegt að Alþingi taki af allan vafa í málinu og kveði á um virkjanir á þessum svæðum. Framkoma hæstv. umhverfisráðherra er með ólíkindum í þessu máli og það er mjög sérstakt að hún skuli njóta trausts á þingi og innan ríkisstjórnarinnar til að sitja enn á stóli. Þessi niðurstaða var fyrirséð og vinnubrögð hennar því engan veginn í takt við það sem lá fyrir að yrði niðurstaða í málinu. Markmið hæstv. ráðherra var svo augljóslega að reyna að tefja málið. Skýringar hennar eftir að hæstaréttardómur féll um að markmið hennar væru að náttúran skyldi njóta forgangs var ekki hægt að skilja öðruvísi en að það væri í hennar huga í lagi að ganga í berhögg við lög í landinu til að ná fram markmiðum sínum.

Orkuframleiðsla verður auðvitað grunnurinn að því sem við þurfum að byggja upp eins og ég hef sagt áður. Nýting orkuauðlinda landsins er auðvitað fín lína milli verndunar og nýtingar. Það er ákaflega mikilvægt að við fetum þá götu af skynsemi og tökum tillit til efnahagslegra og umhverfislegra þátta eins og vera ber, en við megum ekki vera í öfgum á annarri hvorri hliðinni. Það er fín lína sem við þurfum að feta og ég tel að við höfum sýnt það í verkum okkar fram að þessu að við berum virðingu fyrir náttúrunni. Við sem erum kallaðir virkjunarsinnar á stundum erum alveg í þeim hópi að vilja ganga vel um náttúruna og taka tillit til framtíðarkynslóða þegar kemur að nýtingu náttúruauðlinda. En við höfum líka lagt því lið að hér hafa verið færðir í lög og verndaðir þjóðgarðar sem nema yfir 20% af landinu, sennilega nær 25% í dag. Sennilega ekkert land sem við berum okkur saman við hefur friðað eins stóran hluta af landi sínu í formi þjóðgarða. Það er auðvitað gert með það í huga að vernda fjölbreytta náttúru landsins og að hún haldi eins mikið sinni óbreyttu mynd og kostur er. Þetta fæst þó ekki án fórna, við þurfum að gera okkur grein fyrir því. Fórnirnar eru kannski fyrst og fremst ákveðin sjónmengun af því sem getur horfið undir vatn og þeim mannvirkjum sem þessu fylgja og eru t.d. línur oft nefndar í því sambandi. En við verðum að horfa lengra fram á veginn. Þegar síminn var lagður í sveitirnar á sínum tíma hafa kannski einhverjir velt því fyrir sér hvað þessir staurar sem fluttu símann heim á bæi væru ljótir og féllu illa inn í umhverfið en þeir eru allir horfnir í dag og þannig fer væntanlega innan einhverra ára eða áratuga að þær raflínur sem í dag eru í háspennulínum í möstrum fara meira og minna í stokka í jörð. Þessar fórnir verðum við að færa til að byggja upp mannvænlegt samfélag og geta svarað þeim kröfum sem gerðar eru til okkar til að byggja upp samfélag sem getur veitt borgurum sínum sem besta þjónustu.

Það er mikið atvinnuleysi í landinu. Í dag ganga hátt í 15 þúsund manns um atvinnulaus. Langtímaatvinnuleysi er að vaxa og við þetta verður ekki búið. Við verðum að sporna við atvinnuleysi með öllum tiltækum ráðum og skynsamleg nýting orkuauðlindanna er þar eitt mikilvægasta lóðið á vogarskálarnar. Auðvitað spila aðrir möguleikar þar inn í, framkvæmdir sem við getum t.d. farið í í samgöngumálum og ákveðin sátt um fiskveiðistjórnarkerfið, um þá stefnu sem sáttanefndin markaði. Með ákvörðunum af því tagi mundum við senda miklu meiri bjartsýni og von inn í íslenskt samfélag, bæði fyrirtækjum og almenningi.

Hagvaxtarspár og atvinnuleysisspár standast ekki. Það er ljóst að atvinnuleysið vex og flutningur fólks af landinu eykst. Hagvöxtur sem upphaflega átti að vera um 3,5% áætlaður á þessu ári verður á bilinu 0,7–2% ef hann þá nær þessum tölum, um það er deilt, og hluti af þeim hagvaxtarspám sem settar voru fram í fjárlagafrumvarpi og í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár byggði á því að það yrði aukin neysla í landinu. Það sér hver heilvita maður að með þessu aukna atvinnuleysi, með þeirri skattstefnu sem hér er rekin og þeirri dýrtíð og erfiðleikum sem steðja að íslenskum heimilum og fyrirtækjum mun slíkt markmið ekki nást.

Fjárfestingar sárvatnar í íslenskt samfélag. Þær hafa ekki verið minni á lýðveldistímanum. Við erum að tala um að á þessu ári vanti um 150 milljarða í fjárfestingar til að standast þær áætlanir sem við vonuðumst til að gengju eftir. Þetta eru gríðarlegar tölur og ef þetta gengur ekki eftir á þessu ári sé ég ekki hvernig fjárlagagerð næsta árs kemur til með að líta út. Maður hefur af því miklar áhyggjur að gatið í fjárlögum muni hreinlega stækka og að þessi ríkisstjórn muni þá hafa hugmyndir um að auka hér enn frekar skatta og draga enn frekar úr samfélagslegri þjónustu.

Í samanburði voru fjárfestingar við Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma, sem var einhver mesta fjárfesting á Íslandi fram að því, um 250 milljarðar. Það er ágætt að hugsa þá tölu í samanburði við það sem vantar inn í fjárfestingar þessa árs til að halda lágmarksfjárfestingum í gangi til að þessi hagvöxtur megi ganga eftir.

Staðan hjá fyrirtækjum landsins er vægast sagt ömurleg. Við sjálfstæðismenn heimsóttum í kjördæmaviku fyrir stuttu um 400 fyrirtæki. Menn ræddu þar ekki um Icesave við okkur sem þó var þá nýkomið fram í þinginu. Menn töluðu um atvinnumál, skattamál og afkomu fjölskyldna og fyrirtækja. Það var það sem stóð upp úr fólki. Hjá verktakafyrirtækjum landsins er staðan hvað verst. Reynsla er að flytjast úr landi, tæki eru að flytja úr landi og fyrirtækjum fækkar svo mjög að þeir aðilar sem treysta á þjónustu þessara fyrirtækja, svo sem Vegagerðin og Landsvirkjun, hafa af því verulegar áhyggjur að þegar kemur að því að fara í útboð verði mjög fá fyrirtæki eftir til að bjóða í þau verk. Þetta er auðvitað hrópandi, virðulegi forseti. Vonleysi hjá þessum fyrirtækjum er algjört.

Eitt stórt fyrirtæki heimsótti ég í morgun sem er að stórum hluta til í erlendri eigu. Það fyrirtæki er með gott eigið fé og skuldar ekki neitt. Það var með blómlega starfsemi sem núna er í molum. Eigið fé upp á 500 milljónir mun þrátt fyrir hagræðingar sem hafa verið gerðar í rekstrinum étast upp á þremur árum. Erlendir aðilar og eignaraðilar þessa fyrirtækis eru farnir að skoða það í fullri alvöru að taka niður nýja verksmiðju sem þetta fyrirtæki setti upp árið 2008 og flytja hana til útlanda. Á þeim vettvangi yrði þá einn aðili eftir í landinu sem hefði einhver umsvif á þeim markaði þannig að það væru ekki aðrir til að bjóða t.d. í verk af hálfu hins opinbera, sveitarfélaga eða einkaaðila en eitt fyrirtæki. Þetta er það sem hæstv. ríkisstjórn kallar yfir okkur, virðulegi forseti, algjört vonleysi og menn sjá enga framtíðarsýn. Ef bæði fyrirtæki og almenningur í þessu landi áttuðu sig vel á því að við værum að fara í gegnum mikinn skafl og það þyrfti að færa fórnir til að fara í gegnum hann fylgdu menn með. En fólk er ekki tilbúið til að leggja það á sig endalaust og fyrirtækin eru ekki tilbúin til að taka þátt í þeim dansi ef þau sjá engin ljós við enda ganganna.

Kjarasamningar má segja að séu í uppnámi. Vantraust aðila vinnumarkaðarins gagnvart ríkisstjórninni er algjört og bæði ASÍ og SA hafa gefið það út að þau muni ekki ganga frá kjarasamningum hérna nema fyrir liggi loforð ríkisstjórnarinnar, og meira en loforð, að ákveðin mál verði hreinlega farin í gegnum þingið, búið að afgreiða í þinginu til að þeir kjarasamningar taki gildi. Hávær krafa þessara aðila er að í þessum samningum og ákvörðunum verði ákvarðanir um verklegar framkvæmdir og breytingar á skattstefnu ríkisstjórnarinnar.

Aðilar vinnumarkaðarins eru brenndir, þeir eru skaðbrenndir af þeim efndum sem voru í stöðugleikasáttmálum þar sem ríkisstjórnin stóð varla við nokkurn skapaðan hlut. Er þar skemmst að minnast yfirlýsinga hæstv. forsætisráðherra og fleiri hæstv. ráðherra um að hér ætti að skapa á örskömmum tíma á árinu 2009 eitthvað nálægt 6 þús. störf. Hvar eru þessi störf í dag, núna þegar farið er að líða nokkuð á árið 2011? Hæstv. forsætisráðherra stóð í ræðustól Alþingis í gær og hraunaði yfir stjórnarandstöðuna, sagði þetta allt henni að kenna og þeim neikvæða málflutningi sem frá okkur kemur. Heyr á endemi, virðulegi forseti, heyr á endemi. Hún lofaði 2 þús. störfum í gær. Hún er sem sagt búin að skera þessi 6 þús. störf sem áttu að verða samkvæmt stöðugleikasáttmálanum niður í 2 þús. störf. Hver tekur lengur mark á svona málflutningi? Enginn. Traust almennings og fyrirtækjanna er rofið. Það er í raun engin önnur lausn í þessu máli en að ríkisstjórnin fari frá. Stefna hennar hefur beðið skipbrot. Hún kemst ekki upp úr förunum, hún kemst ekki áfram með þau bráðnauðsynlegu mál sem verður að grípa til.

Það er hægt að fara yfir það í örstuttu máli til hvaða aðgerða við getum gripið á örskömmum tíma, hvaða ákvarðanir við gætum tekið sem mundu leiða af sér nokkur þúsund störf í samfélagi okkar á mjög skömmum tíma. Í fyrsta lagi snýr það auðvitað að sjávarútvegi. Þar þarf að tryggja að farin verði sú sáttaleið sem meginþorri aðila sem um málið hafa fjallað var sammála um að fara. Það þarf að útfæra hana og klára þau mál þannig að sjávarútvegurinn treysti sér til að fara í fjárfestingar og eflingu á sínum vettvangi. Það mun skapa gríðarleg atvinnutækifæri á örskömmum tíma.

Það er hægt að taka ákvarðanir um að fara í vegaframkvæmdir, hefja sérstakt framkvæmdaátak í vegagerð og borga það t.d. á 10 ára tímabili eftir árið 2016. Ríkisstjórnin var tilbúin til að skuldbinda þjóðina upp á 500 milljarða í eldri Icesave-samningum. Fyrsta greiðsla af þeim samningum hefði orðið 60–70 milljarðar á árinu 2016 þannig að ef við færum, fyrir utan jarðgangagerð, í 20–23 milljarða kr. átak til viðbótar við það sem ákveðið er í vegáætlun í vegamálum mundum við skapa hér vel á annað þúsund störf. Það þarf að ráðast í það að setja bönkunum ströng skilyrði um endurskipulagningu lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þessi atriði og önnur er hægt að taka ákvörðun um, virðulegi forseti, og það mundi lyfta sólinni í samfélagi okkar, gefa fólki og fyrirtækjum von og blása þeim í brjóst þannig að það kæmi baráttuandi í samfélagið. Þessi ríkisstjórn er ekki bær til að koma þessu áfram. Innan hennar raða og innan ríkisstjórnarflokkanna eru svo ólík öfl að störfum að menn ná alls ekki að ganga í takt, það er fullreynt. Á þessum vettvangi, í þessum grundvallaratriðum nær þessi ríkisstjórn ekki að ganga í takt og ég biðla til þeirra þingmanna innan þessara flokka sem maður veit að eru annarrar skoðunar og vilja fara aðrar leiðir að fara að hugsa um þjóðarhag í stað þess að halda lífi í þessari vonlausu kommúnistastjórn. Það er ekki hægt að kalla þetta annað.

Þetta mál, virðulegi forseti, sem er eitt af mörgum sem er mikilvægt að taka ákvörðun um og sem ég mæli fyrir fer nú til iðnaðarnefndar. Þar vonast ég til að það fái afgreiðslu sem fyrst vegna þess að í iðnaðarnefnd er ágætur starfsandi. Þar er annar meiri hluti en í þessu ríkisstjórnarsamstarfi. Þar eru einstaklingar sem hugsa flestir líkt, og þar höfum við komið brýnum málum í gegn á þessum vetri sem ríkisstjórnin hefði ekki klárað. Ég vona að við náum samstöðu um þetta mikilvæga mál á þeim vettvangi. Ég óskaði eftir því við einhverja hv. þingmenn úr Samfylkingunni að vera meðflutningsmenn okkar á þessu máli en það gekk ekki eftir. Svo mikil var grýla ríkisstjórnarinnar á þeim og það ákvæði stjórnarsáttmálans um að ekki yrðu teknar frekari ákvarðanir um virkjanir á meðan rammaáætlun væri ófrágengin að menn lögðu ekki í þann slag. Rammaáætlun verður kannski ekki frágengin, virðulegi forseti, fyrr en um þetta leyti á næsta ári. Við getum ekki beðið svo lengi, við höfum ekki tíma til þess. Við verðum að fara að taka ábyrgð á þessu samfélagi. Við verðum að fara að sýna af okkur önnur verk en hér hafa verið viðhöfð. Við verðum að fara að komast úr sporunum.