139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

fjárfestingar í atvinnulífinu og hagvöxtur.

[10:34]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Við áttum ágætan fund með aðilum vinnumarkaðarins í gær, langan fund þar sem farið var yfir ýmis atriði sem snúa að ríkisstjórninni, sem eru margvísleg, er varða atvinnuuppbygginguna, skattamál, ýmislegt á velferðarsviði, í menntamálum, húsnæðismálum og fleiri þáttum. Það er því mjög margt sem snýr að ríkisvaldinu í þessu efni og við eyddum miklum tíma í að skoða hvernig hægt væri að fara í það að glæða atvinnulífið og efla hagvöxt.

Það er ljóst að við deilum alveg þeim áhyggjum með aðilum vinnumarkaðarins að það vantar verulega upp á það sem við töldum að væri að komast í gang, sem er hagvöxturinn og atvinnuuppbyggingin. Fjárfesting hefur verið allt of lítil, hún hefur verið sennilega 13% af landsframleiðslu sl. tvö ár, ekki mikið meira, en það sem þarf að stefna að er að koma fjárfestingunni upp í 18–20% af landsframleiðslu. Það er auðvitað verulegt átak í því fólgið vegna þess að við erum þá að tala um fjárfestingu úr 200 milljörðum í 275 milljarða á næstu tveimur, þremur árum. Það er þó ekki útilokað að við getum gert það og það sem við settumst yfir í gær og er byrjað á er að sjá hvernig við getum sett fram fjárfestingaráætlanir sem ná því markmiði.

Auðvitað er það atvinnulífið fyrst og fremst sem á að keyra upp og það er ríkisstjórnarinnar að skapa þann ramma í kringum það sem þarf. Það er það sem við erum að vinna að og fórum vel yfir í gær hvernig hægt væri að vinna að og verið er að setjast yfir það að setja fram slíka áætlun.

Menn verða líka að muna það þegar verið er að bera saman lága fjárfestingu, sem er vissulega í sögulegu lágmarki miðað við umliðin ár, þá var bólufjárfesting í gangi sem við höfum verið að súpa seyðið af. Kannski er (Forseti hringir.) ekki raunhæft að bera saman fjárfestingu umliðinna ára fyrir hrun og þá fjárfestingu núna þegar við erum að vinna okkur upp í endurreisninni og reyna að skapa atvinnulífinu það svigrúm sem það vissulega þarf á að halda.