139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

fjárfestingar í atvinnulífinu og hagvöxtur.

[10:38]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ekki sanngjarnt af hv. þingmanni og þinginu að tala um að ekkert hafi verið gert í atvinnumálum vegna þess að vissulega hefur verið skapaður fjöldi starfa á þessu tímabili, á þessum tveimur árum, og mörg eru í undirbúningi og farvatninu eins og við fórum yfir um daginn. Sett var fram áætlun árið 2009 um uppbyggingu á fjögur þúsund störfum og tvö þúsund á orkusviðinu. Þegar farið var yfir það nokkru seinna, sennilega níu mánuðum seinna, hve mikið hefði komist í höfn af þessum fjögur þúsund störfum, fyrir utan orkusviðið, var það um 56% á síðasta ári. Við sjáum það líka á atvinnuleysistölum að atvinnuleysi er miklu minna en spáð var í upphafi þegar talað var um 10–11% atvinnuleysi. Við erum núna að tala um 8–9% sem er vissulega allt of mikið.

Hv. þingmaður nefnir gjaldeyrishöftin. Það er verið að vinna að áætlun í gjaldeyrishöftum til að koma okkur út úr þeim. Þau hamla vissulega uppbyggingu í atvinnulífinu en við verðum þó að standa þannig að afnámi gjaldeyrishafta að það fari ekki hér allt um koll (Forseti hringir.) aftur. Ef of harkalega er farið í afnám á gjaldeyrishöftum leiðir það til mikillar gengisfellingar og óðaverðbólgu. Við verðum að standa skynsamlega að málum og ég vona að hv. þingmaður sé sammála mér í því.