139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

efnahagsmál.

[10:39]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra ræddi áðan um litla fjárfestingu og samdrátt í efnahagslífi Íslands sem er vissulega rétt. En það kemur ekki á óvart eins og þessi ríkisstjórn hefur hagað sér. Það er engu líkara en hún hafi ráðið alþjóðlega almannatengslastofu til að finna þær leiðir sem væru líklegastar til að koma í veg fyrir alla hugsanlega fjárfestingu á Íslandi. Pólitísk óvissa hefur aukist jafnt og þétt. Skattar eru hækkaðir smátt og smátt, aftur og aftur og jafnframt tilkynnt að þetta sé rétt svo byrjuninni í þeim efnum.

Grunnatvinnuvegirnir eru settir í uppnám aftur og aftur. Eignaupptaka og þjóðnýting er kynnt sem eðlilegar aðferðir ríkisstjórnar til að koma málum sínum áleiðis. Ráðherrar fara á svig við lög og lýsa því svo yfir eftir að þeir hafa verið dæmdir að það sé bara eðlilegt, þegar lögin henta ekki, til að ná fram pólitískum markmiðum. Stjórnvöld hafa afskipti af dómstólum aftur og aftur með tilmælum fyrir og eftir dóma. Og svo fer hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um heiminn og hvar sem hann kemst í fjölmiðla, sérstaklega þó viðskiptafjölmiðla, lýsir hann því yfir að á Íslandi verði gjaldeyrishöft um fyrirsjáanlega framtíð. Gjaldmiðillinn sé ónýtur, það muni enginn vilja fjárfesta í þessu landi meðan sá gjaldmiðill er. Svo kemur hæstv. fjármálaráðherra og segir: Þessi gjaldmiðill verður áfram um fyrirsjáanlega framtíð. En hæstv. efnahagsráðherra segir: Það mun enginn fjárfesta á Íslandi, enda gjaldmiðillinn ónýtur, hér verða efnahagshöft og ef þessir og þessir hlutir gerast ekki verður áframhaldandi atvinnuleysi og samdráttur. Svona kynnir hæstv. efnahagsráðherra landsins íslenskt efnahagslíf fyrir erlendum fjárfestum.

Efnahagsráðherrar landa eru yfirleitt með varfærnustu mönnum. Þeir passa sig mjög á því hvað þeir segja vegna þess að það er yfirleitt lesið í hvert einasta orð, jafnvel oftúlkað. En hæstv. efnahagsráðherra Íslands fer um heiminn og talar eins og hömlulausasti bloggari við erlenda fjármálamiðla. Hefur hæstv. forsætisráðherra útskýrt fyrir efnahagsráðherra sínum hvað í starfi hans felst, hvernig ráðherrum beri að haga sér, sérstaklega efnahagsráðherra.