139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

efnahagsmál.

[10:44]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Þetta er ekki hægt. Nú verður virðulegur forseti að reyna að útskýra fyrir forsætisráðherra hvað í starfi forsætisráðherra felst. Það er ekki nóg með að hæstv. efnahagsráðherra hafi ekki hugmynd um hvað felst í hans starfi, það virðist sannast enn á ný að hæstv. forsætisráðherra veit ekki við hvaða embætti hún hefur tekið. Hæstv. forsætisráðherra er ekki lengur fyrrverandi ráðherra í stjórnarandstöðu sem getur komið upp í pontu hvað eftir annað til að skammast í öllum öðrum. Nú þarf hæstv. forsætisráðherra að fara að taka ábyrgð og fara að útskýra fyrir almenningi hvernig hún ætlar að leiða þjóðina út úr vandanum. Það er hlutverk forsætisráðherra, en ekki að koma hér aftur og aftur og spyrja stjórnarandstöðuna: Hvað viljið þið? og reyna að setja alla ábyrgð yfir á stjórnarandstöðu í landinu þegar hæstv. forsætisráðherra er búin að vera í embætti sínu í tvö ár.

Hæstv. fjármálaráðherra kemur og segir: Við verðum með krónuna um næstu ókomin ár. Hæstv. efnahagsráðherra kemur daginn áður og segir: Krónan er að leggja allt í rúst og kynnir það fyrir öllum erlendum fjölmiðlum að hér muni ekkert gerast á meðan krónan er, sem er stefna hæstv. fjármálaráðherra. Nú verður hæstv. forsætisráðherra að fara að útskýra stefnu ríkisstjórnarinnar.