139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

hagkvæmniathugun á flutningi Landhelgisgæslunnar.

[10:49]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta eru eðlilegar spurningar og ég fagna því þegar þingmenn vilja leggja gott til málanna, ekki síst hvað varðar starfsöryggi þeirra sem störfuðu hjá Varnarmálastofnun. Ég fullvissa hv. þingmann um að staðið verður við öll þau fyrirheit sem starfsfólki voru gefin í því efni.

Ég átti fund með forstjórum Landhelgisgæslunnar annars vegar og Isavia hins vegar, sem eru þeir aðilar sem sinna verkefnum þessu tengdum, og það varð að samkomulagi okkar í milli að þeir gerðu skoðun á þessum málum og legðu fram tillögur til mín um framtíðarfyrirkomulag.

Fyrir fáeinum dögum fékk ég bréf frá þessum tveimur aðilum, forstjórum Landhelgisgæslunnar og Isavia, þar sem þeir óskuðu eftir fresti á málinu, vildu skoða það nánar. Þetta var þeirra ósk en þeir fullvissuðu mig jafnframt um að hvað varðar starfsmennina, einstaklingana sem störfuðu hjá Varnarmálastofnun og eru núna vistaðir hjá Landhelgisgæslunni, undir regnhlíf hennar, væri hag þeirra fullkomlega borgið.

Hvað varðar hina spurninguna sem hv. þingmaður beindi til mín og snertir hagkvæmniathugun á flutningi Landhelgisgæslunnar á Suðurnesin er alveg rétt hjá hv. þingmanni að við stefndum að því að niðurstaða þeirrar könnunar lægi fyrir í febrúarmánuði, reyndar í upphafi febrúarmánaðar. Hún liggur enn ekki fyrir en hennar er að vænta á næstu dögum, vona ég. Við fólum embættismönnum í innanríkisráðuneytinu að fara í þessa könnun (Forseti hringir.) en fá utanaðkomandi aðila sér til aðstoðar. Þeir skila til okkar niðurstöðu sinni mjög fljótlega, á næstu dögum vona ég.