139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

endurskoðun laga um stjórn fiskveiða.

[11:01]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Nú er liðið hálft ár síðan endurskoðunarnefnd í sambandi við sjávarútvegsmálin skilaði af sér afurð sinni til ríkisstjórnarinnar og síðan hefur fátt spurst um það hvernig ætlunin væri að hrinda þeim hugmyndum í framkvæmd sem endurskoðunarnefndin lagði á borð ríkisstjórnarinnar.

Síðustu dagana eru hins vegar að spyrjast út ýmsar fréttir um þessi mál og síðast í Fréttablaðinu í morgun þar sem tíundaðar eru útlínur á mögulegu frumvarpi ríkisstjórnarinnar um fiskveiðistjórnarmálin. Nú spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Eru þessar fréttir sannar? Er það rétt sem kemur fram í Fréttablaðinu um útlínur þess frumvarps sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að leggja fram í sjávarútvegsmálum á næstu dögum?

Í öðru lagi hlýt ég líka að spyrja í þessu sambandi um samráðið. Við erum stödd hér á ákaflega viðkvæmum tímum. Á næstu dögum getur það ráðist hvort hér takist kjarasamningar í landinu og enginn vafi á því að hluti af því er auðvitað hvernig starfsumhverfi sjávarútvegsins, okkar mikilvægu atvinnugreinar, á að líta út. Menn geta haft ýmsar skoðanir á því hvernig aðkoma hagsmunaaðila eigi að vera en ég held að allir hljóti að gera sér grein fyrir því að aðkoman verður með einhverjum hætti og þetta varðar miklu um framtíð kjarasamninganna. Hafa þessi mál ekki verið rædd efnislega við aðila vinnumarkaðarins, þeim gerð grein fyrir þeim hugmyndum sem uppi eru í þessum efnum? Sérstaklega vil ég nefna að hér er sagt að það eigi að setja á svokallað leigukvótaþing, auka leiguframsal í kvóta, og þá spyr ég hæstv. forsætisráðherra alveg sérstaklega hvort þau mál hafi ekki verið rædd við forustumenn sjómannasamtakanna í landinu. Sjómenn hafa barist gegn leiguframsali, (Forseti hringir.) sjómenn hafa sagt að það væri úrslitaatriði í þeirra kjarasamningum. Er ekki alveg öruggt að ríkisstjórnin hefur rætt þessi mál alveg sérstaklega við forustu sjómannasamtakanna?