139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

endurskoðun laga um stjórn fiskveiða.

[11:03]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður veit er það tiltekna mál sem hann nefndi, endurskoðun á sjávarútvegslögunum, á forræði sjávarútvegsráðherra sem hefur haft veg og vanda af því máli alveg frá því að stóra samráðið skilaði tillögum til ráðherrans í september. Það hefur verið í undirbúningi hjá ráðherra síðan. Ég er ekki í færum til þess að upplýsa hvað er nákvæmlega á borðunum núna eða hvað er rétt og rangt í þeim fréttum sem fram komu í Fréttablaðinu í morgun. Málið er bara ekki komið á þann stað að það sé tímabært að upplýsa það á Alþingi, en ég get þó sagt við hv. þingmann að það er unnið nótt og dag í sjávarútvegsráðuneytinu að þessu máli í samráði við þá þingmenn sem tilnefndir hafa verið af stjórnarflokkunum til að vinna með sjávarútvegsráðuneytinu. Það þokast mjög vel í málinu og niðurstaða milli flokkanna mun væntanlega liggja fyrir á allra næstu dögum. Samráðið sem hv. þingmaður er að tala um átti sér vissulega stað í því ferli sem var í gangi áður en stóra sáttanefndin skilaði af sér. Ég veit út af fyrir sig ekki hvaða samráð sjávarútvegsráðherra hefur haft við einstaka aðila í þessu ferli frá því í september, en vil þó fullvissa þingmanninn um að málið er á góðu skriði og ég vænti þess að það geti farið inn í þingið sem allra fyrst og vonandi í þessum mánuði. Það er allt og sumt sem ég get upplýst í þessu máli.