139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

endurskoðun laga um stjórn fiskveiða.

[11:05]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta voru ótrúlega rýr svör. Ég veit auðvitað að prýðilegt samráð átti sér stað. Eiginlega eina dæmið um gott samráð af hálfu ríkisstjórnarinnar er það sem átti sér stað í stóru endurskoðunarnefndinni. En síðan lauk því og það sem hæstv. forsætisráðherra er að segja okkur er að síðan þá hafi ekkert gerst á því sviði.

Hæstv. ráðherra talar um að það sé samráð við þingmenn stjórnarliðsins. Stjórnarliðið verður auðvitað að koma að málinu, annars verður það væntanlega ekki að stjórnarfrumvarpi. Það sem ég spurði um var einfaldlega þetta: Er ekki alveg augljóst mál og er það ekki öruggt að hæstv. forsætisráðherra, sem fer m.a. með samskiptin við aðila vinnumarkaðarins, hafi rætt efnisatriði þessa stóra máls við aðila vinnumarkaðarins? Það hlýtur að blasa við hverjum einasta manni að það skiptir miklu máli um hvað menn geta samið um í kjarasamningum hvernig lagaumhverfi sjávarútvegsins á að líta út. Vill hæstv. ráðherra neita eða játa því hvort hún hafi rætt þessi mál efnislega (Forseti hringir.) við aðila vinnumarkaðarins og alveg sérstaklega við forustu sjómannasamtakanna sem eru á móti leigukvótaviðskiptum (Forseti hringir.) sem er verið að boða á forsíðu Fréttablaðsins ?