139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[11:21]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er sannarlega þörf umræða, það þarf leiðbeiningar fyrir hæstv. ráðherra svo þeir svari einföldum spurningum sem fyrir þá eru lagðar. (BirgJ: Heyr, heyr.) Ég lagði mjög einfaldar spurningar fyrir hæstv. forsætisráðherra og gekk ekki að fá svörin fyrr en ég hóf það sem mér er heldur illa við, frammíköll. Þá byrjaði eiginlega dagskrártíminn óundirbúin frammíköll. Það var undir þeim dagskrárlið sem hæstv. forsætisráðherra svaraði loksins því sem ég spurði um sem var hvort ekki ætti að fara fram eitthvert samráð um sjávarútvegsmálin við aðila vinnumarkaðarins í ljósi þess að það getur ráðist á næstu dögum hvort kjarasamningar takist. Þá gerðist það að hæstv. forsætisráðherra henti stríðshanska inn í kjaraviðræðurnar með því að greina okkur frá því að það stæði ekki til, að ekki væri ætlunin að fram færi neitt samráð um það stóra mál, hvorki við aðila vinnumarkaðarins almennt né við sjómannaforustuna. Það eru gríðarlega alvarleg tíðindi og lúta að (Forseti hringir.) samskiptum ríkisstjórnarinnar við aðila vinnumarkaðarins og möguleikum á kjarasamningum. (Forseti hringir.) Það eru stór tíðindi. (ÓÞ: Samráðið stóð í 18 mánuði.)