139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

stjórn vatnamála.

298. mál
[11:24]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Við greiðum hér atkvæði eftir 2. umr. um mikilvægt en nokkuð snúið mál, nýja löggjöf um vatn, skipulag, eftirlit og vernd. Umhverfisnefnd hefur ákveðið að taka allan þann tíma sem hún hefur til ráðstöfunar í því máli, sem er nú reyndar skammur því að við erum í skömm með málið gagnvart félögum okkar á Evrópska efnahagssvæðinu. Nefndin hefur þegar ákveðið að taka það fyrir milli 2. og 3. umr. og kallar þar á meðal í því sambandi aftur tiltekna grein sem ekki náðist að skoða nógu vel. Að auki þurfum við að fjalla um eitt eða tvö álitamál og koma að nokkrum leiðréttingum sem ég hygg að nefndin komist að lokum að niðurstöðu um að þurfi að verða á málinu.

En í meginatriðum er þetta komið og um málið er góð samstaða í nefndinni sem ég fagna og bið menn að taka því vel við atkvæðagreiðsluna.