139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

stjórn vatnamála.

298. mál
[11:29]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Að baki þeirri grein sem hér er liggur tiltölulega lítil rannsókn í umhverfisnefnd. Í morgun fengum við mjög alvarlegar athugasemdir frá forstöðumanni Umhverfisstofnunar þar sem tekið er undir þær athugasemdir sem fram komu við umræður í nefndinni um þetta atriði. Þær lúta að því að verið sé að gera hlutverk stofnana óskýrara, það bjóði upp á deilur á milli þeirra. Þarna er verið að setja fram ósamstæðar kröfur sem kalla á breytileika í verkefnum og fjármögnun og þar að auki mun breytingin, ef hún gengur fram, setja innleiðingu frumvarpsins í uppnám og gera alla vinnu dýrari og erfiðari. Ég treysti því, í ljósi þeirra orða sem hv. formaður nefndarinnar viðhafði áðan, að nefndin muni gaumgæfa málið á milli umræðna, að það verði gert en engu að síður munum við, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, sitja hjá við afgreiðslu þessara greina í ljósi þessa og í trausti þess að málið verði endurskoðað.