139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

hernaður Gaddafís gegn líbísku þjóðinni og viðbrögð alþjóðasamfélagsins.

[11:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Miklar hörmungar ganga nú yfir heiminn, náttúruhamfarir og hernaður. Við náttúruhamförum er erfitt að bregðast, en hernaður er alltaf af mannavöldum.

Fyrir stuttu risu íbúar Líbíu upp gegn áratugalangri harðstjórn eins harðsvíraðasta einræðisherra síðustu áratuga. Íbúar landsins mótmæltu harðræði, atvinnuleysi, háu matarverði o.fl. og gripu á endanum til þess ráðs að yfirtaka nokkrar af borgum landsins. Íbúarnir vildu frelsi.

Þegar útlit var fyrir að borgarar landsins væru með undirtökin og harðstjóri Líbíu hrökklaðist frá völdum taldi alþjóðasamfélagið að sækja ætti hann til saka fyrir stríðsglæpi. Þjóðarleiðtogar heimsins kepptust við að hvetja líbísku þjóðina til dáða og hallmæltu harðstjóranum. En studdu þeir við þjóðina?

Nokkrum dögum síðar hefur dæmið snúist við. Harðstjórinn virðist vera að ná undirtökunum og fer nú með hersveitir sínar á miklum hraða um landið og nær hverri borginni og hverju þorpinu á fætur öðru aftur úr höndum borgaranna. Til þess notar hann herflugvélar, skriðdreka og önnur vopn er Vesturlönd hafa séð honum fyrir, m.a. í skiptum fyrir olíu og gas.

Leiðarahöfundur hins virta blaðs Financial Times lýsir hræsni alþjóðasamfélagsins í leiðara 23. febrúar sl. Þar fjallar hann um fund leiðtoga Evrópusambandsins og Afríku sem haldinn var í Trípólí, höfuðborg Líbíu, í nóvember sl. Þar var einræðisherrann hylltur, þar var honum þakkað fyrir einstaklega vingjarnlegar og höfðinglegar móttökur. Leiðarahöfundur lýsir virðingu leiðtoganna fyrir einræðisherranum sem dæmi um mörg mistök í utanríkisstefnu Evrópusambandsins. Leiðarahöfundurinn segir að Evrópusambandslöndin þurfi að virka sem ábyrgt afl í utanríkispólitíkinni en ekki sem marghöfða skrímsli.

Nú hikstar alþjóðasamfélagið, frú forseti, nú hikstar skrímslið. Nú virðist enginn vita hvað taka skuli til bragðs. Evrópusambandsþjóðirnar geta ekki komið sér saman um hvað gera skuli og taka ekki af skarið. Þar er fundað og spjallað. Einn segir: Hjálpum borgurunum. Annar segir: Nei, bíðum. Meðan þessi lönd þvæla fram og aftur og komast ekki að niðurstöðu æðir fyrrum og núverandi vinur þeirra, Múammar Gaddafí, eins og stormsveipur gegn saklausum borgurum Líbíu.

Er getuleysi alþjóðasamfélagsins algjört? Ég spyr. Getur verið að viðskipti með olíu og vopn komi í veg fyrir að borgurunum sé hjálpað? Ég spyr. Getur það haft áhrif að 85% af olíusölu Líbíu er til Evrópulanda? Þar af kaupir Ítalía ein 22% af allri þeirri olíu sem flutt er frá Líbíu til Evrópu. Hefur það áhrif að Líbíustjórn á 7,5% í stærsta banka Ítalíu? Hvað þvælist fyrir alþjóðasamfélaginu? Hefur það áhrif að mörg stórfyrirtæki heims eru með starfsemi í Líbíu, þar á meðal franska olíufyrirtækið Total, hið breska BP og spænski olíurisinn Repsol?

Bírókratismi Evrópusambandsins og alþjóðastjórnmálanna heftir viðbragðsflýtinn því að meðan herrarnir funda í Brussel og New York blæðir líbísku þjóðinni út. Einmitt þetta var eitt af því sem rætt var í Evrópuþinginu í gær er forseti Evrópusambandsins og fleiri silkihúfur þar voru til svara. Þar bentu þingmenn á hræsnina sem viðgengst gagnvart Gaddafí. Þingmenn sýndu ljósmynd síðan í desember af forseta Evrópusambandsins með Gaddafí þar sem þeir brostu út að eyrum. Samt hafði Gaddafí lýst heilögu stríði gagnvart Sviss og hótað Evrópusambandinu holskeflu af innflytjendum ef hann fengi ekki aukna fjármuni til að stöðva flóttamennina. Annar þingmaður sagði í umræðunum: Mér þykir leitt að Evrópusambandið skuli ekki geta gripið til aðgerða. Það verður forvitnilegt að sjá hvað við gerum ef Gaddafí sigrar. Hvað þá? „Back to business as usual,“ eins og hann orðaði það, þ.e. aftur í sama farið.

Er mögulega enn og aftur beðið eftir því að Bandaríkjamenn taki af skarið? Þurfa þeir enn og aftur að bjarga okkur Evrópubúum, nú frá því að verða okkur til ævarandi skammar fyrir að hafa staðið hjá þegar nágrannar við Miðjarðarhafið þurftu á hjálp að halda? Eru menn búnir að gleyma Balkanlöndunum? Eru menn búnir að gleyma Rúanda þar sem 800 þúsund manns voru drepnir á 100 dögum?

Sameinuðu þjóðirnar þurfa að koma hratt að málinu. Því miður eru miklar líkur á að þegar þjóðir heimsins loksins vakna verði einræðisherrann búinn að eyða þeim sem risu gegn honum. Evrópa er stærsti viðskiptaaðili Líbíu og hefur verið um árabil. Leyniþjónusta Evrópulandanna hefur án efa fylgst með voðaverkum Gaddafís gagnvart þegnum sínum löngu áður en uppreisnin hófst og ábyrgðin er því mikil. Vandinn er væntanlega sá að vestrænu löndin eru svo háð olíu frá einræðisherrum arabaríkjanna að þau geta ekki gengið fram fyrir skjöldu. Þá spyrjum við: Hvað gerist næst? Alþjóðasamfélagið er að bregðast borgurum Líbíu.

Virðulegi forseti. Við berum öll ábyrgð. Úti um allan heim eru þingmenn líkt og þeir er hér sitja undrandi á stöðu mála. Vissulega sitjum við ekki við háborðið þar sem heimspólitíkin er rædd og stjórnað af ríkja- og viðskiptablokkum. En það er nú þannig að ef Gaddafí tekst að berja niður réttlátar kröfur íbúa landsins með ofbeldi og alþjóðasamfélagið lætur það viðgangast mun ekkert breytast. Einræðisherrar heimsins munu ganga á lagið því að flestir þeirra búa yfir gæðum sem hið svokallaða alþjóðasamfélag og vestrænar þjóðir sækjast eftir.

Frú forseti. Hvað hyggst ríkisstjórn Íslands gera til að hjálpa líbísku þjóðinni? (Forseti hringir.) Geta þjóðir heims gripið inn í og sent þannig einræðisherrum heimsins skýr skilaboð? Og, forseti, telur utanríkisráðherra að ef svo fer að ekki verði komið böndum á Gaddafí muni alþjóðasamfélagið einangra hann eða halda áfram að kaupa af honum olíu og selja honum vopn?