139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

hernaður Gaddafís gegn líbísku þjóðinni og viðbrögð alþjóðasamfélagsins.

[12:00]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir að hafa tekið þetta mál upp á Alþingi og get tekið undir þau meginsjónarmið sem hann kynnir hér í sinni framsögu. Það vekur athygli mína hversu mikill samhljómur er milli hv. þingmanns og hæstv. utanríkisráðherra vegna þess að nú liggur fyrir að í þessu máli er um að ræða einræðisherra sem gengur fram gegn þjóð sinni og hlustar ekki á lýðræðiskröfur, um margt svipað ástand og við horfðum á á sínum tíma í Írak. Hæstv. utanríkisráðherra var ekki beint hrifinn af þeim aðgerðum sem Bandaríkjamenn beittu sér fyrir á þeim tíma gegn ógnarstjórninni í Írak og kröfunni um aukið lýðræði og að koma á nýju borgaralegu skipulagi í Írak sem allir kannast við. Sú saga er margrædd og kunnug hér á þinginu.

Það sem hefur breyst í grundvallaratriðum frá því að farið var inn í Írak og þar til þetta ástand rís núna í Líbíu er að það er kominn nýr forseti í Bandaríkjunum sem fylgir nýrri stefnu. Wall Street Journal hefur lýst því þannig að hann fylgi ákveðinni afskiptaleysisstefnu og hann ætli sér ekki að leiða þjóðir heims í afstöðu þeirra til átaka á borð við þau sem eiga sér stað núna vegna Líbíu. Nú sjáum við hvaða afleiðingar það hefur þegar menn þurfa alfarið að treysta á alþjóðastofnanirnar vegna þess að þær eru í þessu máli, að því er mér virðist, meira eða minna lamaðar. Þar er að öllu leyti byggt á fullri samstöðu um aðgerðir og á meðan forseti Líbíu er við það að salla niður eigin borgara er það eflaust rétt hjá hæstv. utanríkisráðherra (Forseti hringir.) að NATO, öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og aðrir slíkir aðilar eru flæktir inn í svo mikla pólitíska hagsmuni (Forseti hringir.) að þeir geta ekki komist að neinni niðurstöðu.