139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

hernaður Gaddafís gegn líbísku þjóðinni og viðbrögð alþjóðasamfélagsins.

[12:03]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir þessa umræðu og lýsa ánægju með flest þau sjónarmið sem komu fram í máli hv. málshefjanda. Þau ríma prýðilega við þau sjónarmið sem ég rakti í utandagskrárumræðu sem ég átti frumkvæði að fyrir stuttu um sambærilegt málefni.

Það er alveg ljóst að núna hefur farið yfir arabaheiminn krafa um lýðfrelsi og endalok kúgunar og ánauðar. Við eigum að sjálfsögðu að fagna því og taka undir þau sjónarmið. Hins vegar er ástandið í Líbíu mjög alvarlegt og ekki hægt að gera lítið úr því. Ég ítreka þau sjónarmið sem komu fram í máli mínu í fyrri umræðu um þetta mál, það er tvískinnungur í gangi og hefur verið af hálfu vesturveldanna. Þær upplýsingar sem ég hef m.a. um vopnaviðskipti Evrópusambandsríkja til Líbíu, sérstaklega eftir að vopnasölubanni var aflétt árið 2004, eru að heildarvopnaviðskiptin árin 2005–2009 hafi numið um 830 milljónum evra til Líbíu einnar og aukningin á milli áranna 2005 og 2009 hafi verið fimmföld.

Vestrænir leiðtogar, eins og hv. Gunnar Bragi Sveinsson gat um hér, hafa ekki hikað við að hampa leiðtogum, m.a. Gaddafí þegar vel hefur staðið á, og nýtt sér vinfengi við þá til að tryggja pólitíska, hernaðarlega og efnahagslega hagsmuni sína í þessum heimshluta. Það er staðreynd og það á að sjálfsögðu að vera okkur til umhugsunar og við eigum að læra af því í afstöðunni til framtíðar.

Ég tel að það sé forsenda þess að það geti orðið almennur stuðningur við aðgerðir alþjóðasamfélagsins að þær fari fram undir umboði og hatti Sameinuðu þjóðanna og ég tel að við eigum að hvetja til þess. Aðaláhyggjurnar núna eru að sjálfsögðu að Gaddafí muni hefna sín grimmilega á þeim sem veittu mótspyrnu og að fjöldamorð stjórnvalda geti verið í uppsiglingu. Kjörorð okkar í alþjóðamálum eiga að vera lýðræði, mannréttindi og mannúð; ekkert af þessu er (Forseti hringir.) í boði í Líbíu Gaddafís. (BirgJ: Heyr, heyr.)