139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

hernaður Gaddafís gegn líbísku þjóðinni og viðbrögð alþjóðasamfélagsins.

[12:10]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég tek undir það að það er þakkarvert að þetta mál sé tekið hér til umræðu, sérstaklega í ljósi þess hve háskaleg og hörmuleg þróunin í Líbíu hefur verið á síðustu vikum. Öndvert við það sem gerðist í Egyptalandi er þetta að snúast upp í blóðuga borgarastyrjöld þar sem harðstjórinn beitir herjum sínum gegn fólkinu. Við getum í sjálfu sér meira og minna öll haldið sömu ræðuna um óbeit okkar á ástandinu í Líbíu, við getum öll haldið og farið með sömu vandlætingarþuluna um viðbrögð og máttleysi alþjóðasamfélagsins, en þá verðum við líka að svara því hvað við leggjum til að gert verði. Erum við að kalla eftir viðskiptabanni, hernaðaraðgerðum eða hvað viljum við að verði gert? Og á forræði hvers?

Ég tek undir það sem fram kom hjá nokkrum ræðumönnum, ég er alveg sannfærður um að aðgerðir eiga og munu verða á forræði Sameinuðu þjóðanna. NATO, Bandaríkjamenn, Sameinuðu þjóðirnar þurfa að sameinast um þetta mál. Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lýsti því yfir að Bandaríkjamenn mundu ekki gera það sem þeir gerðu í Írak, þ.e. að fara inn í landið án þess að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefði fjallað um málið og væri því samþykkt. Að öðru leyti tek ég undir að samanburðurinn á ástandinu í Líbíu og Írak er varla fyrir hendi, þetta er gjörólíkt ástand. Þarna er um að ræða þróun sem hefur átt sér stað í arabalöndunum, lýðræðis- og frelsisþróun sem hikstar og stöðvast þarna og er að breytast í blóðuga styrjöld innan lands sem gæti trúlega endað með skelfilegum afleiðingum. Við köllum öll eftir tafarlausum aðgerðum og ég tek undir það að þær aðgerðir verða að eiga sér stað. Vonandi ber alþjóðasamfélagið, Sameinuðu þjóðirnar, NATO, gæfu til þess á næstu klukkustundum að taka ákvörðun um það að beita sér fyrir aðgerðum sem duga til þess að stoppa þessa þróun.