139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

hernaður Gaddafís gegn líbísku þjóðinni og viðbrögð alþjóðasamfélagsins.

[12:12]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé ljóst og um það þurfum við ekki að fjalla mörgum orðum að Gaddafí er ábyggilega einn sá harðsvíraðasti einræðisherra sem mannkynið hefur horfst í augu við. Hann er því miður ekki sá eini harðsvíraði einræðisherra sem við höfum séð en hann er án efa miskunnarlaus einræðisherra. Um það erum við sammála og það er alveg ljóst að við í þessum sal deilum þeim skoðunum að ástandið í Líbíu sé grafalvarlegt og stórhættulegt. Það má kannski segja að sú von sem bærðist í brjóstum heimsbyggðarinnar þegar uppreisnarmenn náðu ákveðinni fótfestu fyrir örfáum vikum og sú atburðarás sem í raun og veru hófst í Egyptalandi teygði sig til Líbíu og menn sáu fram á það í fyrsta sinn að það væri þá hægt að beygja Gaddafí niður hafi dvínað. Því miður virðist margt benda til þess að hann sé aftur að ná undirtökunum með gríðarlegri grimmd sinni gagnvart sínum eigin samborgurum, maður sem hikar ekki við að sprengja samborgara sína í loft upp.

Spurningin hlýtur þá að vera sú hvert hlutverk bæði lítillar þjóðar eins og Íslands og alþjóðasamfélagsins sé. Hvernig á að bregðast við? Hér hefur verið talað um fyrri afskipti vegna annarra þjóða, hér var t.d. talað um Írak. Það er hægt að tiltaka fleiri þjóðir, sannleikurinn er auðvitað sá að það sem er að gerast í slíkum löndum þar sem einræðisherrar ráða ríkjum og þegar einhver breyting verður og borgarar þeirra landa rísa upp (Gripið fram í.) — ef ég gæti fengið hljóð fyrir hv. þingmanni — er afskaplega lítill tími til að bregðast við. Það er afskaplega lítill tími til að takast á við ógnina þegar taflið snýst við og þá þurfa menn oft að taka erfiðari ákvarðanir en þeir hefðu gjarnan viljað gera.

Nú horfumst við í augu við það að Gaddafí er að snúa taflinu við, hann er að myrða samborgara sína og spurningin er: Hversu langan tíma (Forseti hringir.) hefur alþjóðasamfélagið til að tala um þetta mál (Forseti hringir.) í sínum stofnunum?