139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

hernaður Gaddafís gegn líbísku þjóðinni og viðbrögð alþjóðasamfélagsins.

[12:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Vitanlega getum við ekki réttlætt eitt stríð með öðru eða hvernig menn brugðust við. Ég tek hins vegar undir þau orð sem fram komu m.a. hjá hv. þm. Bjarna Benediktssyni að það er tvískinnungur í öllum þessum málum. Það er sá tvískinnungur sem ég reyndi að benda á í ræðu minni, þessir hagsmunir sem alþjóðasamfélagið og stofnanirnar eru sífellt að velta fyrir sér. Það eru viðskiptahagsmunir sem ráða för að miklu leyti.

Ég hef miklar áhyggjur af því að við hér, hvert og eitt sem höfum talað, höfum vísað til þess að Sameinuðu þjóðirnar þurfi að taka á þessu máli. Við viljum, flest eins og mér heyrist, gjarnan að gripið verði til vopna gagnvart Gaddafí ef það er undir merkjum Sameinuðu þjóðanna. En því miður virðist mér að Sameinuðu þjóðirnar líkt og lönd Evrópusambandsins, sem eiga mestra hagsmuna að gæta á þessu landsvæði, séu ófærar um að taka þær ákvarðanir sem þarf að taka.

Er það þá þannig að alþjóðasamfélagið getur ekki komið sér saman um loftferðabann, innrás, hvað þá að fara í mannúðarbjörgunaraðgerðir eins og mér skildist á hæstv. utanríkisráðherra að NATO gæti ekki hugsað sér að fara í? Hvað í ósköpunum erum við þá að gera með þessar stofnanir þegar kemur að svona átökum ef þær geta ekki tekið ákvarðanir?

Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir lýsti því ágætlega áðan hvernig staðan er. Það eru 36 tímar í að Gaddafí verði kominn þar inn, að því er fólkið í Bengasí telur, og hvað gerist þá? Er alþjóðasamfélagið, Sameinuðu þjóðirnar, Evrópusambandið, reiðubúið og getur það tekið ákvörðun á þessum stutta tíma? Í framhaldi af því vaknar líka spurningin: Hvaða stjórnvöld eru það í rauninni sem er verið að ræða við í Líbíu um lausn á málinu? Er verið að ræða við Gaddafí og hver er að gera það? Er verið að ræða við bráðabirgðastjórnina eða byltingarmennina? Hefur það komið til tals hjá hæstv. ríkisstjórn að viðurkenna stjórn uppreisnarmanna, stjórnina sem ég held að Frakkar hafi viðurkennt?

Það er hræsni í þessu máli, (Forseti hringir.) það er það sem ég er að reyna að vekja athygli á í þessari umræðu, (Forseti hringir.) og hún mun halda áfram nema það verði einhver breyting á því hvernig menn halda á viðskiptum og höndla með þessa einræðisherra sem eru úti um allan heim. (BirgJ: Heyr, heyr.)