139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

störf Norrænu ráðherranefndarinnar 2010.

577. mál
[12:34]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. samstarfsráðherra Norðurlandanna fyrir greinargóða skýrslu um norræna samstarfið, en mig langar aðeins að inna hæstv. ráðherra betur eftir því hvað verið er að gera til að leysa þau vandamál sem íslenskir stúdentar hafa lent í í Svíþjóð. Það er rétt sem fram kom hjá hæstv. ráðherra að íslenskir stúdentar fá ekki þær bætur sem þeir og við teljum að þeir eigi rétt á samkvæmt norrænum samningum. Mér heyrðist hæstv. ráðherra segja að ekki væri búið að leysa vandamálið, það væri enn þá til staðar og að verið væri að reyna að vinna að lausn á því hjá okkur innan velferðarráðuneytisins.

Þetta mál er ekki alveg nýtt af nálinni, það er búið að standa yfir í einhverja mánuði eða meira, hugsanlega hálft ár, ég man það ekki svo gjörla. En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort búið sé að reyna að setja niður einhvern tímaramma varðandi hvenær eigi að vera búið að leysa málið. Er því kannski bara ýtt inn í ráðuneyti og svo bíða menn og vonast til þess að það leysist einhvern veginn af sjálfu sér?

Ef það dregst að leysa málið kemur þá til greina að gera eitthvað fyrir þessa stúdenta? Er hægt að koma til móts við þá tímabundið eða aðstoða þá einhvern veginn þangað til þeir fá úrlausn sinna mála? Vonandi tekst að leysa málið og ég tel mjög brýnt að fulltrúi okkar í landamærahindrunarsamstarfinu, Guðríður Sigurðardóttir, og líka sendiherra Íslands í Svíþjóð, Guðmundur Árni Stefánsson, haldi áfram að beita sér í þessu máli. Þau hafa gert það að ég tel af miklum myndarbrag en samt er ekki búið að leysa það. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra nánar út í stöðu málsins.