139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

störf Norrænu ráðherranefndarinnar 2010.

577. mál
[12:36]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er rétt að tryggingamálin eru ekki leyst. Ég nefndi áðan dæmi um innritunarmálin sem virðast vera að leysast, við vonum að þau verði leyst með fullnægjandi hætti. Tryggingamálin eru ekki leyst og núna eru velferðarráðuneyti landanna að ræða saman um þau. Ég veit til þess að í þessari viku var áætlaður embættismannafundur þar sem ræða átti tryggingamálin.

Mér finnst mjög mikilvægt og hef lagt á það mikla áherslu að málið verði áfram á dagskrá nefndar um stjórnsýsluhindranir. Ég lít svo á að þetta sé hápólitískt mál og þurfi þar af leiðandi að vera til umræðu þar og hjá samstarfsráðherrunum en sem stendur er unnið að því á vettvangi velferðarráðuneytanna að reyna að leysa það.

Hvað varðar tryggingamálin er skilningur manna sá að séu námsmennirnir ekki tryggðir í Svíþjóð séu þeir tryggðir á Íslandi en það stangast hins vegar á við efni norræna samningsins. Það stendur til að endurskoða hann en þeirri endurskoðun er ekki lokið og við gerum alvarlegar athugasemdir við það ef Svíar gefa sér það að endurskoðun muni leiða til breytinga á samningnum. Á meðan samningurinn er óbreyttur á hann að gilda sem slíkur og því sjónarmiði höfum við haldið á lofti bæði á fundum ráðherranefndarinnar og á landamærahindranavettvangnum. Ég treysti mér hins vegar ekki til að gefa nánari tímaramma annan en að við reynum að fylgja málinu eftir eins og sendiherra í Svíþjóð hefur gert og fleiri aðilar.