139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

norrænt samstarf 2010.

595. mál
[12:40]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Eins og hæstv. forseti gat um mæli ég hér fyrir skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sem er að finna á þingskjali 1013. Ég mun ekki hirða um að lesa skýrsluna enda þingmenn í færum um að kynna sér efni hennar. Hún er talsvert yfirgripsmikil en ég ætla að stikla á stóru um helstu málefni og verkefni sem voru efst á baugi í starfsemi Norðurlandaráðs á síðastliðnu ári.

Á málefnasviðinu, eins og fram kom hjá hæstv. samstarfsráðherra Norðurlanda fyrr á fundinum, hefur menningarsamstarfið og samstarf um vísindarannsóknir auðvitað skipað mikinn sess. Á árinu 2010 var sjónum manna í norrænni samvinnu hins vegar mjög beint að grænum hagvexti, að þeim tækifærum sem í honum felast og auðvitað þeim umhverfislegu áskorunum sem við stöndum frammi fyrir, ekki bara við á Norðurlöndum heldur heimsbyggðin öll. Þar liggja tækifæri í atvinnulífi og efnahagsstarfsemi sem felast í því að þróa lausnir sem mæta umhverfisvandanum og einbeita sér að samstarfi á norrænum vettvangi á þessu sviði vegna þess að jafnvel þegar samdráttur var í efnahagskerfi heimsins, óx þessi geiri atvinnustarfseminnar gríðarlega um allan heim. Þar er velta að aukast óhemju mikið ár frá ári og mörg störf að verða til.

Þetta er líka geiri þar sem Norðurlöndin standa á mörgum sviðum framarlega, kannski ekki síst á orkusviðinu þar sem margar Norðurlandaþjóðanna búa að sérþekkingu, hver á sínu sviði. Við á Íslandi í jarðhitanum, Danirnir í vindorku, Svíarnir í lífdísli o.s.frv. En það er auðvitað á fjölmörgum öðrum sviðum sem nýsköpunartækifæri og tækifæri til atvinnusköpunar og vaxtar í efnahagsstarfseminni á Norðurlöndunum liggja. Þess er skemmst að minnast að fyrir tveimur árum fékk hið íslenska fyrirtæki Marorka umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs en það hefur getið sér gott orð í grænni tækni. Fyrir utan að með því að efla starfsemi í græna geiranum og huga að grænum vexti er stuðlað að því að takast á við af alvöru og leysa úr þeim gríðarlegu umhverfisvandamálum sem við stöndum frammi fyrir og hafa verið til umfjöllunar á norrænum vettvangi og sömuleiðis á hinum pólitíska vettvangi í mörg herrans ár.

Af öðrum málefnum má nefna Icesave en frá því að það mál kom upp hefur það sannarlega verið til umfjöllunar í Norðurlandaráði, formlega og óformlega, sem og stuðningur Norðurlandaþjóðanna við okkur á Íslandi og lánafyrirgreiðsla. Við Íslendingar höfum náttúrlega þá reynslu að þegar lánamarkaðir heimsins lokuðust fyrir okkur voru Norðurlöndin líflína okkar og samstarf við þau og stuðningur þeirra. Icesave hefur komið til umfjöllunar á þingum Norðurlandaráðs og fundum en ekki síst í flokkahópunum þar sem þingmenn úr flokkahópum hægri manna, miðjumanna, sósíaldemókrata og vinstri manna hafa af Íslands hálfu kynnt sjónarmið okkar og stöðuna á hverjum tíma til að auka skilning og greiða fyrir stuðningi við okkur í gegnum þessa erfiðleika.

Þá má nefna öryggi á norðurslóðum en Íslandsdeild Norðurlandaráðs lét það málefni sérstaklega til sín taka í einu af þeim sviðum sem við lögðum áherslu á á formennskuári okkar á síðasta ári. Það var eftirfylgni Stoltenbergsskýrslunnar sem fjallar um öryggismál á Norðurlöndum og möguleika á auknu samstarfi í öryggis- og utanríkismálum. Íslandsdeildin flutti tillögu um að fylgja eftir þeim atriðum í Stoltenbergsskýrslunni sem snúa að öryggi hér á höfunum, sérstaklega í tengslum við aukna skipaumferð um norðurslóðir og stærri skip sem fara hér um og augljósa hættu sem er að skapast við mjög aukna farþegaflutninga um áður óþekkt svæði og sömuleiðis í vinnslu á olíu á norðurslóðum og flutningi á ýmiss konar efnum um efnahagslögsögur þessara landa. Algerlega nauðsynlegt er að samhæfð viðbrögð séu við þessu. Við fengum tillöguna samþykkta á Norðurlandaráðsþinginu í Reykjavík og við bindum miklar vonir við að á fundi Norðurskautsráðsins á Grænlandi í maí takist loks samkomulag um með hvaða hætti menn ætli að standa að björgun á þessum gríðarlegu hafsvæðum og vinna saman að því. Í framhaldinu þurfa menn síðan að vinda bráðan bug að því að efla og styrkja búnað og úrræði sem menn hafa til björgunarstarfsemi hér á höfunum.

Þá má nefna að Norðurlandaráð hefur nýlega lagt niður stefnumörkun í því sem lýtur að Evrópusambandinu og vill freista þess að beita sér á norrænum vettvangi til að hafa áhrif á löggjöf og þróun í Evrópusambandinu þar sem það á við. Áður hefur Norðurlandaráð stuðlað að því að hafa áhrif á stefnumörkun innan sambandsins en fyrsta stóra málið sem tekið var fyrir og varðaði löggjöf Evrópusambandsins var endurskoðun á neytendalöggjöfinni í Evrópu en fyrirhugað var að samræma neytendalöggjöf á evrópska svæðinu. Í ýmsum atriðum hafa menn náð býsna langt í löggjöf um neytendarétt á Norðurlöndunum og menn höfðu áhyggjur af því að samræming löggjafar á evrópska svæðinu gæti dregið úr réttindum neytenda á Norðurlöndum. Þess vegna áttum við fundi með norrænum Evrópuþingmönnum í Strassborg til að fara yfir stöðu málsins og kynna sjónarmið sem uppi voru á þjóðþingunum og sömuleiðis með þeim ráðherrum sem um málaflokkinn halda á norrænum vettvangi.

Þá voru fjármál á norrænum vettvangi allnokkuð til umfjöllunar, að hluta til auðvitað í framhaldi af hinni alþjóðlegu fjármálakreppu. Sá sem hér stendur lagði fram tillögu um aukið norrænt samstarf um fjármálastöðugleika sem kynnt var á fundum ráðsins í júní en í ágúst var staðfest samstarf Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna á öllu því svæði til að stuðla að auknum fjármálalegum stöðugleika. Það sýndi sig í fjármálakreppunni að efnahagsleg áföll í einu landi geta mjög fljótt haft áhrif um svæðið allt og þannig eru fjármálastofnanir til að mynda í vaxandi mæli farnar að starfa í fleiri en einu og fleiri en tveimur löndum á þessu svæði. Efnahagserfiðleikar og fjármálaóstöðugleiki á einum hluta þess getur haft alvarleg áhrif á öðrum og þess vegna er mikilvægt að efla og þróa samstarf á þessu sviði.

Þá bar einnig nokkuð hátt á síðastliðnu ári það sem nefnt var brottvísunarmálið í Danmörku og hefur komið til umfjöllunar áður á þessum vettvangi. Það snerti nýja framkvæmd Dana í túlkun á réttindum annarra norrænna borgara í Danmörku og þeir hafa neitað töluverðum fjölda einstaklinga um félagslegan stuðning sem hafa á því þurft að halda í Danmörku og vísað þeim á að flytja aftur til heimalands síns, annars norræns lands. Það er auðvitað í algjöru ósamræmi við hinn norræna félagsmálasáttmála. Málið var tekið upp af mikilli hörku af hálfu nefndarinnar sem um málið fjallaði hjá Norðurlandaráði og var sömuleiðis fylgt eftir af miklum þunga á þingi ráðsins í Reykjavík í nóvember. Málið er enn á dagskrá og ráðið hefur beint eindregnum tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar að þrýsta á dönsk stjórnvöld til að við fáum samræmda túlkun um þessi réttindi um öll Norðurlöndin. Lykillinn að þeim mikla árangri sem menn hafa náð í norrænu samstarfi og í því að samræma réttindi á Norðurlöndum er einmitt að réttindin gildi fyrir alla norræna borgara um öll Norðurlönd.

Slíkum samræmingarverkefnum var líka hreyft á árinu og af því að við nefndum fjármálalífið rétt áðan varð mikil og lífleg umfjöllun á Norðurlandaráðsþinginu um það þegar menn senda fjármuni eða greiða reikninga á milli Norðurlanda og þann mikla kostnað sem verið hefur við það. Kom upp tillaga þess efnis að gera það ódýrara og þannig að það megi einu gilda til hvaða lands á Norðurlöndum menn sendi slíkar greiðslur, kostnaðurinn sé svipaður eða sambærilegur. Við höfum áður náð því fram að gera Norðurlöndin að einu svæði, bæði vegabréfasvæði, í póstsamgöngum og ýmsu öðru, og verður spennandi að fylgjast með framvindu tillögunnar og málflutnings alls.

Þá var einnig fjallað umtalsvert á liðnu ári um tillögur Gunnars Wetterbergs sem hann kynnti í blaðaskrifum í kringum Norðurlandaráðsþingið 2009 í Stokkhólmi undir fyrirsögninni „Kalmar unionen“ en þær snúa að því að mynda norrænt sambandsríki. Árbók Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar fjallaði um efnið og sýndist nokkuð sitt hverjum. Sumir hafa hið norræna sambandsríki auðvitað að hugsjón sinni og öðrum þykir að þar séu ekki fyllilega raunsæjar hugmyndir á ferðinni og allt þar á milli. Í eðli sínu, þótt auðvitað megi draga í efa að í nánd sé að við höfum sameiginlegan þjóðhöfðingja eða sameiginlegt þing fyrir öll þessi ríki, snýst hugmyndin um norrænt sambandsríki fyrst og fremst um að við samræmum fleiri málasvið fyrir þetta svæði og vinnum að þeim sameiginlega. Við höfum gert það með góðum árangri á ýmsum sviðum og getum náð enn meiri árangri í þeim efnum.

Að öðru leyti einkenndi árið fyrir Íslandsdeild Norðurlandaráðs að við fórum með forsæti í ráðinu og þar með fyrirsvar fyrir ráðið á alþjóðavettvangi og fyrirsvar fyrir forsætisnefndinni og fyrir þeim mikla viðburði sem Norðurlandaráðsþingið er alltaf í norrænum stjórnmálum. Hingað komu í nóvembermánuði 800 manns saman í tengslum við Norðurlandaráðsþingið og ég held að það sé hárrétt sem fram kom hjá hæstv. samstarfsráðherra að gerður var mjög góður rómur að því hvernig starfsfólk Alþingis stóð að þeirri skipulagningu allri og umgjörð sem var til fyrirmyndar. En líka, og það er ánægjulegt, höfum við fengið ákaflega góð viðbrögð um þá pólitísku umræðu sem fór fram og heppnaðist vel í mörgum málaflokkum að ég held, þannig að ánægju vakti hjá þátttakendum frá öllum norrænu ríkjunum. Það er full ástæða til að þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóg við að gera þetta að glæsilegum viðburði. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur Íslendinga einmitt núna þegar eitt helsta verkefni okkar er að styrkja trúverðugleika okkar á alþjóðlegum vettvangi og endurreisa það traust sem við höfum glatað, að með framkomu okkar og því hvernig við stöndum að þátttöku í alþjóðastarfi sýnum að við erum fær um að takast á við stór og erfið verkefni og leysa þau farsællega af hendi. Ég færi enn og aftur starfsfólki Alþingis alúðarþakkir fyrir hlut þess að þessu.