139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

norrænt samstarf 2010.

595. mál
[12:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Helga Hjörvar, sem er forseti Norðurlandaráðs, fyrir ágæta ræðu. Ég ætlaði að spyrja um nokkur atriði.

Hann minntist á að Norðurlöndin hefðu hjálpað okkur í Icesave og veitt okkur lánafyrirgreiðslu en gat þess ekki að þau settu skilyrði fyrir því að gengið yrði frá samkomulagi um Icesave áður, settu eins konar þumalskrúfu á Íslendinga samhliða því að hjálpa þeim. Við það lærði ég það að þjóðir eru ekki vinir manns heldur stýra hagsmunir ákvörðunum ríkja og landa.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Nú hafa Norðurlöndin reynt að koma á samstarfi um lyfjaeftirlit og annað slíkt þannig að ekki þurfi að tékka inn lyfin á öllum löndunum. Ég ætlaði að spyrja hvað því líður. Og svo langar mig til að spyrja hvort kannað hafi verið í Norðurlandaráði að laga galla í tilskipun Evrópusambandsins um innlánstryggingar, sem Icesave er angi af, þannig að einn innlánstryggingarsjóður sé fyrir öll Norðurlöndin. Gallinn við innlánstryggingarnar er sá að gert er ráð fyrir innlánstryggingum í hverju einstaka landi og í litlum löndum eins og Íslandi getur þetta haft hörmulegar afleiðingar ef einn banki fer, því sjóðurinn ræður ekki við það. Ef einn sjóður væri fyrir öll Norðurlöndin væri þetta nokkuð annar handleggur og þá værum við að tala um raunverulega innlánstryggingu.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann, sem er forseti Norðurlandaráðs, hvort rætt hafi verið á þeim vettvangi um að koma á einum innlánstryggingarsjóði fyrir öll Norðurlöndin sem bankarnir mundu borga í og í kjölfarið yrðu þau að hafa eftirlit með innlánum, sem vantaði reyndar í tilskipun Evrópusambandsins. Það mundi þá verða raunveruleg innlánstryggingu sem núverandi kerfi er ekki, að minnsta kosti ekki í minni löndum.