139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

norrænt samstarf 2010.

595. mál
[13:06]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að Norðurlandaráð hafi á síðustu 20 árum, frá falli múrsins í raun og veru, unnið alveg ótrúlegt starf austur á bóginn í Eystrasaltsríkjunum og í Norðvestur-Rússlandi, bæði í lýðræðismálum, en Norðurlandaráð fór inn í Eystrasaltsríkin áður en þau urðu frjáls, og ekki síður í þeim gríðarlegu erfiðleikum í umhverfismálum og heilbrigðismálum sem við var að glíma á þeim svæðum og er auðvitað sumpart enn, m.a. varðandi vandamál tengd kjarnorku og kjarnorkuúrgangi, kjarnorkuverum og öðru slíku sem við erum einmitt minnt á þessa dagana.

Ég held að að mörgu leyti séu hin stóru verkefni þar nú að baki og að áherslan sé að flytjast á Evrópustarfið af því að þar vinna hagsmunir okkar saman, þessara litlu ríkja sem Norðurlöndin eru í evrópsku samhengi, að við sameinum krafta okkar svo rödd okkar heyrist betur á hinum evrópska vettvangi og að líkurnar séu meiri á því að við getum haft áhrif á framgang mála þar. En ekki síður að flytja áhersluna á norðurslóðir því að þar eru að verða svo miklar breytingar náttúrufarslega, efnahagslega og tæknilega að þar eigum við eftir að horfa upp á mjög vaxandi umferð; stór svæði sem munu opnast, vinnslu náttúruauðlinda, jafnvel hervæðingu og öll þau samfélagslegu verkefni sem þar blasa við. Það eru auðvitað gríðarlegir hagsmunir okkar, lítillar þjóðar langt norður í höfum, að eiga samstarf við þessi stærri ríki þótt lítil séu, hin Norðurlöndin, um að leysa úr ýmsum málum, m.a., eins og Íslandsdeildin og hv. þingmaður hafa komið að, í tengslum við (Forseti hringir.) björgunarmál á norðurslóðum og ekki síður á sviði umhverfismála.