139. löggjafarþing — 96. fundur,  17. mars 2011.

norðurskautsmál 2010.

576. mál
[14:18]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta tímabundna samkomulag var gert milli landanna þriggja, Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar, ég man ekki til þess að annað hafi verið lagt til, alla vega ekki alveg nýlega. Við skulum hins vegar hafa það í huga að Ísland hefur lengi verið og var um árabil í forustu og í formennsku Norðurskautsráðsins og átti á að skipa framkvæmdastjóra þess líka um nokkurra ára skeið, þannig að við höfum að því leyti til gert okkur mjög gildandi eins og ástæða er til í þessu samstarfi.

Ég get tekið undir með hv. þingmanni að ef við viljum taka að okkur slíkt starf eigum við að setja okkur markmið um það og sækja það nokkuð fast. En það þarf að fjárfesta í slíkri forustu, hún kostar peninga og það þarf þá að verja fjármunum skattgreiðenda til þess. Ég held hins vegar að ég geti fullyrt að það mundi margborga sig af því að eins og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir benti á er slík starfsemi þannig vaxin að hún býr til í kringum sig aðra starfsemi og tengingar, heimsóknir, ferðir, fræðslu, rannsóknir og þannig mætti lengi áfram telja, að í raun er þetta eins og hver önnur fjárfesting sem síðan ávaxtast.

Ég skal taka það upp innan Íslandsdeildar þingmannanefndarinnar um Norðurskautsráð hvernig við beitum okkur í þessu máli á þessu ári og þá verðum við auðvitað að gera það í samstarfi og samráði við utanríkisþjónustuna og hæstv. utanríkisráðherra.